Segir hryðjuverkamenn fagna árásinni

Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. AFP

Hassan Rouhani, forseti Íran, segir „hryðjuverkamenn“ fagna ákvörðun Donald Trump um að gera árás á herstöð í Sýrlandi. Hann segist hins vegar einnig styðja sjálfstæða rannsókn á efnavopnaárás í bænum Khan Sheikhun, sem Trump segir verk Sýrlandsstjórnar.

„Þessi maður sem situr nú í embætti í Bandaríkjunum sagðist vilja berjast gegn hryðjuverkastarfsemi en í dag fagna allir hryðjuverkamenn í Sýrlandi áras Bandaríkjanna,“ sagði Rouhani í ræðu sem var sjónvarpað.

„Af hverju ræðstu gegn sýrlenska hernum sem stendur í stríði við hryðjuverkamenn? Á grundvelli hvaða laga eða heimilda skaust þú eldflaugum að þessu sjálfstæða ríki?“

Íran og Rússland eru helstu bandamenn Sýrlandsforseta, Bashar al-Assad. Þarlendar stjórnir hafa séð honum fyrir vopnum til að berjast gegn hryðjuverkasamtökum á borð við Ríki íslam en einnig öðrum hópum sem þær segja hryðjuverkamenn.

Rouhani kallaði eftir því að stofnuð yrði sjálfstæð rannsóknarnefnd á vegum „hlutlausra ríkja“ til að rannsaka efnavopnaárásina í Khan Sheikhun en hún var tilefni árásar Bandaríkjamanna.

„Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum á Sýrlandsstjórn ekki efnavopn,“ sagði hann og vísaði þar til eyðileggingar á efnavopnabirgðum Sýrlands samkvæmt samkomulagi Washington og Moskvu frá 2013.

Á föstudag sagði Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, að fullyrðingar vesturveldanna um aðkomu stjórnarhersins að efnavopnaárásinni væru falskar. Þá líkti hann þeim við fullyrðingar um gjöreyðileggingarvopn Saddam Hussein, sem leiddu til innrásarinnar í Írak en reyndust ósannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert