Fjörutíu féllu á einum sólarhring

Ítrekaðar árásir hafa verið gerðar í Jemen síðasta sólarhringinn.
Ítrekaðar árásir hafa verið gerðar í Jemen síðasta sólarhringinn. AFP

Átök á jörðu niðri og loftárásir í suðvesturhluta Jemen urðu meira en fjörutíu að bana, þar á meðal óbreyttum borgurum, á einum sólarhring. 

Orrustuþotur bandamanna, með Sádi-Araba í broddi fylkingar, hafa gert ítrekaðar árásir á bækistöðvar uppreisnarmanna Húta austur af hafnarborginni Mokha frá því í gær. 

Í kjölfar loftárásanna brutust út átök á jörðu niðri. Að minnsta kosti sautján uppreisnarmenn létust í árásunum, aðallega í borginni Hodeida. 

Bandalagsríkin, sem styðja forseta landsins, segja að Hodeida og nágrenni verði skotmörk herja þeirra á næstunni. Vonast þau til að ná þannig völdum á landssvæðinu frá uppreisnarmönnum sem þeir segja Írana styðja við bakið á, m.a. með því að útvega vopn. 

Þá voru ellefu uppreisnarmenn felldir í loftárásum á Kamaran-eyju í Rauðahafi. Tíu hermenn stjórnarhersins létust og fimmtán særðust. 

Þá létust þrír óbreyttir borgarar á árásunum og tveir voru særðir í borginni Daleh.

Styrjöldin í Jemen hefur nú staðið í tvö ár en þá hófu bandalagsríkin afskipti af borgarastyrjöldinni í landinu. Styðja ríkin Abedrabbo Mansour Hadi forseta sem var um tíma í útlegð vegna þrýstings frá uppreisnarmönnum.

Sameinuðu þjóðirnar telja að meira en 7.700 manns hafi fallið í átökunum frá upphafi stríðsins. 

Hungursneyð vofir yfir Jemenum en allir innviðir landsins, svo sem fjarskipti, samgöngur og heilbrigðisþjónusta, riða til falls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert