„Ég keyrði á trúleysingja“

Lögregla og sjúkraliðar að störfum á vettvangi árásarinnar.
Lögregla og sjúkraliðar að störfum á vettvangi árásarinnar. AFP

Rakhmat Akilov, sem sænska lögreglan er með í haldi vegna gruns um að hann standi að baki árásinni í miðborg Stokkhólms á föstudag hefur játað að bera ábyrgð á árásinni.

„Ég keyrði á trúleysingja,“ sagði Akilov, sem er 39 ára Úsbeki að því er sænska dagblaðið Aftonbladet hefur eftir heimildarmanni sem tengist rannsókninni.

Lögregla greindi frá því í gær að Akilov hefði sótt um dvalarleyfi í Svíþjóð 2014, en verið synjað í fyrra og tilkynnt að senda ætti hann úr landi. Ekki var hins vegar búið að því þar sem lögregla greip í tómt er hún ætlaði að sækja hann á heimilisfangið sem hún var með skráð fyrir hann.

Með kemísk efni, gas og nagla í bílnum

Fjórir létust er Akilov ók inn í mannfjöldann við Åhléns Center-verslunarmiðstöðina í miðborg Stokkhólms. Búið er að nafngreina tvo þeirra, belgíska konu, Maïlys Dereymaeker, sem var á leið að hitta vini og breskan karlmann, Chris Bevington. Níu til viðbótar slösuðust alvarlega og hafa sjö þeirra hafa nú verið fluttir á almenna deild en ástand tveggja er enn alvarlegt. Sjö til viðbótar hlutu lítils háttar meiðsl.

Akilov var handtekinn í versluninni Circle K í Märsta, einu úthverfa Stokkhólms, á föstudagskvöldið. Þar á hann að hafa hegðað sér undarlega, verið með sýnileg meiðsl og á að hafa sagt „það var ég sem gerði það“.

Samkvæmt heimildum Aftonbladet má rekja meiðsl Akilovs til eldsins sem kviknaði þegar hann ók bílnum á inngang verslunarinnar. Lögregla hefur staðfest að hann hafi verið með hlut í bílnum sem líkist sprengju, eða eldfima hluti sem hægt var að valda skaða með. Aftonbladed segir þetta hafa verið gasflöskur, kemísk efni, nagla og skrúfur sem áttu að virka sem sprengja.

Blaðið hefur þá eftir heimildarmanni sínum að Akilov hafi haldið áfram að tjá sig um málið eftir að hann var handtekinn og á hann að hafa sagt að hann hafi „sprengt í Svíþjóð af því að við sprengjum í hans landi.“

Sagði skipunina koma frá Ríki íslams

Þá á Akilov að hafa sagt að hann sé múslimi og vígamaður hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Þá hafi „fyrirskipun“ um árásina á Drottninggatan komið beint frá hryðjuverkasamtökunum í Sýrlandi.

„Sprengingunum í Sýrlandi verður að ljúka,“ segir heimildamaður Aftonbladets að Akilov hafi sagt.

„Við vit­um að hann styður viss öfga­sam­tök, til að mynda hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams,“ sagði Joh­an Hys­ing hjá sænsku lög­regl­unni á blaðamannafundi í gær. 

Johan Eriksson, verjandi Akilovs, hefur ekki viljað tjá sig um málið heldur ber við trúnaði.

Sænska lög­regl­an greindi frá því í gær að ann­ar maður hafi verið hand­tek­inn í tengsl­um við rann­sókn máls­ins og sögðu sænsk­ir fjöl­miðlar hand­töku­skip­un­ina gefna út vegna gruns um morð við hryðju­verk. Þá voru fimm manns sagðir sæta enn yf­ir­heyrsl­um í tengsl­um við rann­sóknina, en um helg­ina tók lög­regla, með aðstoð sænsku ör­ygg­is­lög­regl­unn­ar Säpo, yfir 500 skýrsl­ur í tengsl­um við rann­sókn­ina og gerði hús­leit á fjölda staða. Þá hef­ur lög­regla einnig und­ir hönd­um um 70 sta­f­ræn sönn­un­ar­gögn sem þarfn­ast frek­ari rann­sókna við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert