Þjóðverjar berjast með Kúrdum

Yfir 200 Þjóðverjar hafa farið til Sýrlands og Íraks og …
Yfir 200 Þjóðverjar hafa farið til Sýrlands og Íraks og barist með kúrdískum hermönnum gegn Ríki íslams. AFP

Yfir 200 manns hafa ferðast frá Þýskalandi til Íraks og Sýrlands til að berjast með kúrdískum hermönnum gegn Ríki íslams. Þetta kom fram í svari innanríkisráðherra Þýskalands við fyrirspurn frá vinstri­flokknum, Die Lin­ke. 

Um 69 af þeim 204 einstaklingum eru þýskir ríkisborgarar. Þessar tölur ná ekki yfir þann hóp sem hefur farið úr landi til að berjast með liðsmönnum pes­h­merga sem eru Kúrdar og berjast í Írak. 

Þrír látist 

Á meðal sjálfboðaliða sem hafa ferðast frá Þýskalandi árið 2013 hafa 102 snúið aftur til Þýskalands, þar á meðal 43 þýskir ríkisborgarar. Þrír af þessum rúmlega 200 manns hafa látist og þar af einn í loftárásum Tyrkja í Sýrlandi í nóvember. 

Í svörum frá ráðuneytinu kom fram að ekki sé vitað nákvæmlega um aðstæðurnar. „Það var ekki tilefni til að ræða málið frekar við tyrknesk yfirvöld,“ segir í svarinu. 

Ulla Jelpke, þingmaður vinstriflokksins Die Lin­ke, segir „skandal“ að þýsk stjórnvöld hafi ekki rannsakað árás Tyrkja frekar. 

Þýsk stjórnvöld hafa varað við ferðalögum til Sýrlands og Íraks. 

Talið er að hundruð sjálfboðaliða hafi komið til landsins til að berjast með kúrdískum hermönnum í Sýrlandi og að minnsta kosti 25 þeirra hafa látið lífið, að sögn Mannréttindasamtaka í Sýrlandi.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert