Hvatti Ivanka Trump til loftárásar?

Ivanka Trump ásamt föður sínum, Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Ivanka Trump ásamt föður sínum, Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Eric Trump segist þess fullviss að systir hans, Ivanka, hafi notað áhrif sín og hvatt föður þeirra, Donald Trump Bandaríkjaforseta, til að gera loftárásir í Sýrlandi í síðustu viku.

Trump forseti hóf loftárásir á skotmörk tengdum Sýrlandsher í kjölfar mannskæðrar efnavopnaárásar í Idlib-héraði fyrir viku. Í árásinni létust börn. Trump var í kjölfarið tíðrætt um að börn hefðu látist, „lítil, saklaus börn.“

„Ivanka er þriggja barna móðir og hún hefur áhrif. Ég er viss um að hún sagði [við pabba sinn]: „Heyrðu, þetta er hræðilegt“,“ segir Eric Trump í samtali við breska blaðið The Telegraph.

„Faðir minn mun bregðast við á tímum sem þessum. Og svo því sé haldið til haga þá var hann á móti aðgerðum í Sýrlandi fyrir tveimur árum. Svo ræðst leiðtogi lands á eigin þjóð með efnavopnum, konur og börn. Á einhverjum tímapunkti verða Bandaríkin sem forystuþjóð og önnur stórveldi heimsins að stíga fram og bregðast við.“

Varð djúpt snortinn

EricTrump segir að faðir sinn hafi orðið djúpt snortinn af myndum af særðum börnum í kjölfar árásarinnar. Hann segist ekki koma að ríkisstjórn landsins persónulega en hann hafi séð að faðir hans var sleginn.

Eric Trump segir að myndir af börnum eftir árásina hafi …
Eric Trump segir að myndir af börnum eftir árásina hafi haft mikil áhrif á föður sinn eins og alla aðra. AFP

„Það er ekki ein einasta heiðarleg manneskja í heiminum sem sá þessar myndir, sem sá þessi börn vera úðuð með vatni svo að húð þeirra myndi ekki brenna, sem ekki komst við,“ segir Eric Trump. „Þetta var hræðilegt. Þessir menn eru villimenn og ég er glaður að hann brást við með þeim hætti sem hann gerði.“

Ivanka Trump tók að sér ólaunað starf aðstoðarmanns föður síns í síðasta mánuði. Hún er mjög sýnileg í Hvíta húsinu og við ýmis tilefni, m.a. á fundum föður síns og þjóðarleiðtoga.

Eric Trump hefur tekið við rekstri fasteignaveldis fjölskyldunnar ásamt bróður sínum, Donald Trump yngri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert