Vörpuðu „móður allra sprengja“

Bandaríkjaher hefur gert árásir á vígi Ríkis íslams í Achin …
Bandaríkjaher hefur gert árásir á vígi Ríkis íslams í Achin í Afganistan síðustu daga. Þessi mynd er tekin í fyrradag og sýnir loftárás á svæðið. AFP

Bandaríski herinn varpaði í dag risastórri sprengju á skotmörk sem tilheyra Ríki íslams í Afganistan. Sprengjan er kölluð „móðir allra sprengja“. Talið er að um sé að ræða stærstu  sprengju sem beint hefur verið gegn vígamönnum hryðjuverkasamtakanna hingað til, að því er varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir.

Sprengjunni var varpað á íverustað sem byggist upp af jarðgöngum í Achin í Nangarhar-héraði. Árásin var gerð kl. 15.02 að íslenskum tíma. Í frétt AFP segir að sprengjan heiti GBU-43/B Massive Ordnance Air Blast, MOAB, og að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt vopn er notað til árásar. Sprengjan var hins vegar hönnuð á meðan Íraksstríðinu stóð. Sprengjan var síðast sprengd í tilraunaskyni árið 2003 og mátti þá sjá stórt sveppalaga ský sem af henni hlaust í um 32 kílómetra fjarlægð.

Í frétt CNN kemur fram að bandaríski herinn meti nú skemmdirnar sem urðu og mögulegt mannfall.

Sprengjan er tæplega tíu tonn að þyngd og útbúin nákvæmri GPS-stýringu. Um er að ræða stærstu kjarnorkulausu sprengju sem Bandaríkjamenn búa yfir. 

Henni var varpað frá borði MC-130 flutningaflugvélar sérsveita hersins.

Hér að neðan gefur að líta myndskeið af tilraunum með sprengjuna sem um ræðir:

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Torfi Kristján Stefánsson: MOAB
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert