Breskri konu banað í Jerúsalem

Kristnir pílagrímar safnast nú saman á heilögum stöðum í Jerúsalem.
Kristnir pílagrímar safnast nú saman á heilögum stöðum í Jerúsalem. AFP

Bresk kona á þrítugsaldri var stungin til bana í Jerúsalem, á sama tíma og þúsundir pílagríma söfnuðust saman á heilögum stöðum borgarinnar yfir páskahátíðina. Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn palestínskur.

Samkvæmt Guardian stakk maðurinn konuna nokkrum sinnum í brjóstið um borð í léttlést. Vitni sögðu bráðaliða hafa reynt að bjarga konunni en án árangurs.

Hinn meinti árásarmaður var handtekinn á vettvangi en fyrstu fregnir sögðu hann 57 ára íbúa borgarinnar. Var hann sagður þjást af andlegum veikindum. Lögreglustjórinn Yoram Halevi sagði í samtali við útvarpið að maðurinn hefði gerst sekur um heimilisofbeldi.

Seinna sagði í yfirlýsingu frá öryggisstofnuninni Shin Bet að árásarmaðurinn hefði einnig verið dæmdur fyrir kynferðisbrot. Ísraelskir fjölmiðlar segja um að ræða Jamil Tamimi, íbúa palestínska hverfisins Ras al-Amud.

„Þetta er enn eitt tilvik af mörgum þar sem Palestínumaður sem þjáist af andlegum veikindum eða persónulegum vandamálum velur að leysa vandann með árás,“ sagði í yfirlýsingu Shin Bet.

Breska sendiráðið hefur sagst vera í sambandi við yfirvöld í Jerúsalem vegna málsins en hefur ekki viljað tjá sig að öðru leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert