Fæddist með átta útlimi

Gufran Ali heldur á syni sínum Karam. Aðgerðin á drengnum …
Gufran Ali heldur á syni sínum Karam. Aðgerðin á drengnum gekk vel. AFP

Barn sem fæddist með átta útlimi, þar af tvo út frá maganum, hefur gengist undir aðgerð þar sem „aukalimirnir“ voru fjarlægðir. Útlimirnir eru það sem eftir er af síamstvíbura hins sjö mánaða Karam, sem varð aldrei fullvaxta í móðurkviði og rann þess í stað saman við drenginn.

Karam fæddist í Írak en faðir hans flaug með hann til Indlands í aðgerðina, sem fór fram í þremur skrefum. Aðeins er vitað um fimm til sex önnur tilfelli af þessu tagi, sem gerði aðgerðina erfiða að sögn lækna.

„Hann kom til okkar þegar hann var tveggja vikna og ástand hans var einstætt. Flestar þær aðgerðir sem við framkvæmdum hafa ekki verið gerðar áður,“ hefur AFP eftir bæklunarskurðlækninum Gaurav Rathore.

Hann sagði allt hafa gengið vel og að Karam væri afar glaðlynt barn.

Læknarnir byrjuðu á því að fjarlægja útlimina sem stóðu út frá maganum. Þá þurfti næst að sinna hjarta Karam en í lokaskrefinu voru hinir aukalimirnir fjarlægðir.

Faðir Karam, sem fylltist skelfingu við fæðingu barnsins, segist nú vonast til þess að sonur sinn dafni og verði heilbrigður. „Hann er eina barnið mitt og það sem fæðist fyrst er alltaf sérsakt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert