Fresta öllu flugi til Norður-Kóreu

Flugvélar Air China á flugvellinum í Peking.
Flugvélar Air China á flugvellinum í Peking. AFP

Kínverska flugfélagið Air China, sem er eina flugfélagið utan Norður-Kóreu sem heldur uppi reglubundnu flugi þangað, hefur frestað öllu flugi þangað um ótilgreindan tíma. Kemur ákvörðunin í kjölfar þess að Norður-Kórea hótaði „miskunnarlausu“ viðbragði við ógnunum Bandaríkjanna.

Þá hefur verið greint frá starfsemi á kjarnorkutilraunastöð Norður-Kóreumanna og er jafnvel búist við að gerð verði slík tilraun vegna 105 ára afmælis fyrrverandi leiðtoga ríkisins á morgun.

Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að síðasta flugið í bili hafi verið í dag klukkan 18:00 að staðartíma. Þá er sérstaklega tekið fram að á þeim níu árum sem flogið hafi verið á milli Peking og Pyongyang hafi flug margsinnis fallið niður, meðal annars vegna skorts á farþegum og árstíðabundinna sveiflna.

Undanfarið hefur verið flogið þrisvar í viku á milli borganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert