„Rétta vopnið gegn rétta skotmarkinu“

John Nicholson, hershöfðingi Bandaríkjahers í Afganistan, segir að „móðir allra sprengja“ sem var varpað á bækistöðvar Ríkis íslams í landinu í gær hafi verið „rétta vopnið gegn rétta skotmarkinu“.

„Óvinurinn var búinn að smíða neðanjarðarbyrgi, göng og koma jarðsprengjum fyrir á stóru svæði og þetta vopn var notað til þess að takast á við þessar hindranir til að við gætum haldið áfram okkar markmiðum í suðurhluta Nangarhar,“ sagði Nicholson á blaðamannafundi.

„Við höfum verið með umfangsmikið eftirlit á svæðinu, bæði fyrir og eftir árásina, og núna eru afganskir og bandarískir hermenn staddir þar og þeir sjá engin merki um að almennir borgarar hafi látist. Auk þess hafa engar fregnir borist annars staðar frá um dauðsföll almennra borgara,“ sagði hann.

„Við skulum hafa það á hreinu að við munum ekkert gefa eftir í markmiði okkar. Í því felst að berjast við hlið afganskra hermanna til að tortíma Ríki íslams í Afganistan árið 2017.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert