Það yrði enginn sigurvegari

Menn telja mögulegt að tilraunasprenging sé í undirbúningi í tilefni …
Menn telja mögulegt að tilraunasprenging sé í undirbúningi í tilefni 105 ára fæðingarafmælis Kim Il-Sung. AFP

Átök gætu brotist út á hverri stundu vegna Norður-Kóreu en það mun enginn standa uppi sem sigurvegari í því stríði, segir utanríkisráðherra Kína. Ummælin lét Wang Yi falla í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Norður-Kóreu „vandamál“ sem yrði leyst.

Wang sagði spennuna hafa magnast undanfarið, með Bandaríkin og Kína öðrum megin við borðið og Norður-Kóreu hinum megin. Sagðist hann hafa það á tilfinningunni að átök gætu brotist út hvenær sem er.

„Ef til stríðs kemur verður niðurstaðan ástand þar sem allir tapa og það verður enginn sigurvegari,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi með kollega sínum frá Frakklandi, Jean-Marc Ayrault.

Wang sagði að hvor aðilinn sem yrði þess valdandi að átök brytust út þyrfti að axla „hina sögulegu ábyrgð“ og gjalda fyrir.

Einn ráðgjafa Trump í utanríkismálum sagði í dag að Bandaríkjamenn ynnu að því að meta hernaðarvalkosti vegna kjarnorkubrölts Norður-Kóreu. Sagði hann að spurningin væri ekki hvort ríkið myndi sprengja aðra tilraunasprengju heldur hvenær.

„Viðræður eru eina mögulega lausnin,“ sagði Wang.

Það mun enginn standa uppi sem sigurvegari, segir Wang Yi.
Það mun enginn standa uppi sem sigurvegari, segir Wang Yi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert