Ætla að senda heilabilaða konu úr landi

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Norden.org

Sjötug afgönsk kona, Zarmena Waziri, sem þjáist af heilabilun, verður væntanlega send úr landi í Danmörku þar sem henni hefur synjað um hæli í landinu. Dóttir hennar, sem einnig er í Danmörku, segir að móðir hennar muni ekki lifa af tvo daga í Kabúl.

Dönsk yfirvöld hafa hafnað hælisumsókn Waziri og hafa farið fram á að hún mæti í hælismiðstöðina í Sandholm svo hægt sé að vísa henni úr landi, samkvæmt frétt Politiken fyrr í vikunni.

Leif Randeris, sem stýrir skrifstofu innflytjendamála í Árósum (Indvandrerrådgivning), segir í samtali við Politiken að hann hafi fengið munnlega staðfestingu fyrir því hjá lögreglu að Wazari sé kominn á lista yfir þá sem vísa á úr landi og að hana megi handtaka gefi hún sig ekki sjálfviljug fram í Sandholm.

Frá Kabúl.
Frá Kabúl. AFP

Konan, sem er með heilabilun, hefur fengið heilablæðingar og glímir við háan blóðþrýsting. Dóttir hennar, Marzia Waziri, sem hefur búið í Danmörku í 25 ár, segir í viðtali við Politiken að móðir hennar myndi ekki lifa af meira en tvo daga í Afganistan en móðir hennar býr hjá henni og er umönnun hennar í höndum Mariziu.

„Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda um hvað getur gerst,“ segir hún um mögulegt ferðalag móður hennar til Kabúl. „Við eigum enga fjölskyldu lengur í Afganistan sem gæti hugsað um hana. Við erum tvö systkinin og búum bæði í Danmörku.“

Randeris segir að hann hafi óskað eftir því að Waziri fengi hæli af mannúðarástæðum í fyrra en ráðuneyti innflytjendamála hefur enn ekki svarað beiðninni. Bæði utanríkisráðuneyti Danmerkur og bandaríska sendiráðið í Kabúl mæla mjög gegn ferðalegum til Afganistan þar sem ástandið sé gríðarlega óstöðugt í landinu.

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert