Flóttamenn til bjargar fjallaþorpi á Ítalíu

Í hlíðum Aspromonte fjallgarðsins í suður Ítalíu hefur dauða lítils þorps verið snúið í sókn eftir að ákveðið var að taka á móti fjölda flóttamanna í þorpið sem dvelja þar í staðinn fyrir að vera í flóttamannabúðum meðan beðið er eftir því að mál þeirra verði tekin fyrir.

Íbúafjölda þorpsins Sant‘Alessio hafði undanfarin ár stöðugt farið fækkandi og bjuggu þar aðeins um 330 manns, margir hverjir eldri borgarar. Unga fólkið hafði yfirgefið staðinn og flutt til norðurhluta landsins eða jafnvel erlendis.

Til að bregðast við þessari þróun ákvað sveitarstjórnin árið 2014 að leigja út átta af tómum íbúðum þorpsins til allt að 35 flóttamanna. Var þetta hluti af svokölluðu SPRAR verkefni, sem er hugsað til að bæta aðstöðu flóttamanna á Ítalíu. Hverjum flóttamanni fylgja smá fjármunir frá ríkinu.

Ákveðið var að gera allt til að aðstoða nýju íbúana til að aðlagast með ítölskunámi, sjúkraþjónustu, aðstoð með lögfræðileg mál, sálfræðiþjónustu og þeim boðið að taka þátt í ýmiskonar afþreyingu eða samfélagsathöfnum, allt frá garðrækt yfir í matreiðslu og dans.

Meðal nýrra íbúa í þorpinu í dag er fjölskylda frá Írak, par frá Gambíu með ungt barn og ungt fólk frá Ghana, Nígeríu, Malí og Senegal.

Stefano Calabro, 43 ára gamall bæjarstjóri Sant‘Alessio segir mannúðarleg viðhorf vera það sem skipti mestu máli, en auk þess sé þessi stefna bæjarins efnahagslega jákvæð fyrir samfélagið. Ítalska ríkið greiði allt að 45 evrur á dag með hverjum flóttamanni og sveitarstjórnin hafi ákveðið að nota það til að bæta verkefnið og þannig fari fjármunirnir í laun fyrir fólk sem hefur verið ráðið í tengslum við það. Meðal þeirra eru kennarar, félagsráðgjafar o.fl., en 16 manns starfa nú í þorpinu vegna verkefnisins.

Segir Stefano að fjölgun íbúa og verkefnið hafi meðal annars komið í veg fyrir að loka yrði grunnþjónustu í þorpinu, svo sem lítilli kjörbúð, apóteki, læknamiðstöð og krá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert