Segir eftirlitsstofnunum að skipta sér ekki af

Erdogan ræðir við stuðningsmenn sína í Ankara.
Erdogan ræðir við stuðningsmenn sína í Ankara. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur beint þeim tilmælum til alþjóðlegra eftirlitsstofnana að skipta sér ekki af og halda sig „á sínum svæðum“. Þjóðaratkvæðagreiðsla í landinu um breytingar á stjórnarskrá landsins, sem fram fór í gær, hefur verið harðlega gagnrýnd af eftirlitsaðilum. Þeir sem studdu breytingarnar báru sigur úr býtum og þýðir það að völd forsetans munu aukast töluvert.

Erdogan ávarpaði stuðningsmenn sína í forsetahöllinni í Ankara í dag og gagnrýndi eftirlitsstofnanir fyrir að efast um lögmæti kosninganna. Erdogan hefur í dag boðað fleiri þjóðaratkvæðisgreiðslur, m.a. um viðræður um inngöngu í Evrópusambandið og að endurvekja dauðarefsingu.

51,41% greiddu atkvæði með breytingum og hafa andstæðingar forsetans gagnrýnt úrslitin og efast þeir um réttmæti þeirra. Stjórnarandstöðuflokkarnir, CHP og HDP hafa sagst ætla að kæra úrslitin.

Talsmaður HDP-flokksins og þingmaðurinn Osman Baydemir sagði blaðamönnum í dag að kosninguna skorti allt „lýðræðislegt lögmæti“. Nokkur þúsund manns mótmæltu úrslitunum í Istanbúl í dag. Fólkið hrópaði m.a. að það væri á „móti fasisma“.

Andstæðingar Erdogan mótmæltu kosningunum í Istanbúl í dag.
Andstæðingar Erdogan mótmæltu kosningunum í Istanbúl í dag. AFP

Andstæðingar Erdogan höfðu kvartað yfir kosningabaráttu breytingasinnanna og sagt hana ósanngjarna þar sem þeir „kaffærðu“ fjölmiðla og notuðu stærðarinnar auglýsingaskilti um landið allt.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar komust jafnframt að þeirri niðurstöðu að kosningabaráttan hefði verið ósanngjörn. Meðal þeirra sem komust að þeirri niðurstöðu voru alþjóðlegu stofnanirnar OSCE og PACE.

Stjórnarandstaðan mótmælti sérstaklega ákvörðun yfirvalda um að leyfa það að atkvæðaseðlar án opinberra stimpla væru gerðir gildir og sögðu þeir það ýta undir líkurnar á svindli.

Erdogan hefur nú sagt OSCE og PACE að hætta að skipta sér af og að tyrknesk yfirvöld myndu ekki taka mark á þeirra áliti.  „Þetta land hélt lýðræðislegustu kosningar sem haldnar hafa verið í Vesturheimi,“ sagði forsetinn meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert