Meirihluti hlynntur útgöngunni

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Meirihluti Breta er ánægður með þá stefnu ríkisstjórnar Bretlands að segja skilið við Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þar í landi eða 55%. Hins vegar eru 45% óánægð með framgöngu stjórnarinnar í þeim málum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að stuðningur við útgönguna úr ESB hafi farið vaxandi samkvæmt skoðanakönnuninni, sem gerð var af fyrirtækinu Orb International, og andstaða við hana hafi ekki verið minni síðan í nóvember.

Þá segir að meirihluti Breta hafi verið ánægður með útgönguna úr ESB undanfarna mánuði miðað við skoðanakannanir. Könnunin nú sýni einnig að fleiri telja áframhaldandi fríverslun við ESB mikilvægari en að draga úr innflutningi fólks frá ríkjum sambandsins.

Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu síðasta sumar með 52% gegn 48% að segja skilið við ESB þar sem Bretland hefur verið innanborðs síðan árið 1973. Bresk stjórnvöld hafa síðan unnið að því markmiði og er almennt gert ráð fyrir að af því verði árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert