Segist ekki verða einræðisherra

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að áform hans um breytingar á stjórnskipan landsins þýði ekki að hann verði einræðisherra.

„Þetta kerfi tilheyrir ekki Tayyip Erdogan. Ég er dauðlegur maður, ég gæti dáið hvenær sem er,“ sagði Erdogan við bandarísku fréttastofuna CNN. „Er þess vegna mögulegt að búa til kerfi fyrir dauðlegan mann sem gæti dáið hvenær sem er? Þetta kerfi felur í sér breytingar á lýðræðislegri sögu Tyrklands.“

 

Tyrkir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn að breytingar verði gerðar á stjórnkerfi landsins, sem fela í sér aukin völd fyrir Erdogan.

„Þegar einræði ríkir þarftu í rauninni ekki að vera með forsetakerfi,“ sagði hann.

„Hérna erum við með kjörkassa [...] lýðræðið fær vald sitt frá fólkinu. Þetta köllum við þjóðarvilja.“

Þrátt fyrir að hann hafi unnið nauman sigur í þjóðaratkvæðagreiðslunni með áform sín, sagði Erdogan í viðtalinu að sigur væri sigur. „Ég kem úr knattspyrnuumhverfi. Það skiptir engu máli hvort þú vinnur 1-0 eða 5-0. Markmiðið er að vinna leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert