Bandaríkjafloti ekki á leið að Kóreuskaga

Herskip bandaríska flotans eru nú á leið í átt að …
Herskip bandaríska flotans eru nú á leið í átt að Kyrrahafinu. AFP

Herskip bandaríska flotans sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í síðustu viku að hann væri að senda að Kóreuskaga sigldu ekki þangað, heldur héldu skipin í öfuga átt og héldu áfram leið sinni að Indlandshafi.

Bandaríski flotinn sagði í byrjun apríl að herskip úr flotanum væru á leið að Kóreuskaganum vegna vaxandi spennu sem flugskeytatilraunir Norður-Kóreu yllu og í síðustu viku sagði Trump herskipaflota á leið þangað.

Flotinn fjarlægðist hins vegar Kóreuskagann nú um helgina þegar hann hélt í átt að Sunda-sundi, sem er á Indlandshafi, eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Eina breytingin sem virðist hafa verið á ferð skipanna er að að hætt var við viðkomu í Perth í Ástralíu.

Fréttavefur BBC segir ekki liggja fyrir hvort hætt hafi verið við Ástralíuheimsóknina í því skyni að valda ótta hjá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, eða hvort einfaldlega hafi verið um misskilning að ræða.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hélt því þó áfram er hann heimsótti Japan í gær, að Bandaríkin myndu bregðast við öllum árásum á Kóreuskaga með „yfirgnæfandi styrk Bandaríkjahers“. Sagði hann Norður-Kóreu vera „hættulegustu og mest aðkallandi ógnina við frið og öryggi á Kyrrahafi“.

Mikil spenna hefur verið milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu undanfarið og fréttir af komu flotans til Kóreuskaga vöktu upp spurningar um það hvort Bandaríkin ætluðu að gera árás á Norður-Kóreu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert