George Osborne hættir á þingi

George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, hefur ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér sem þingmaður á breska þinginu. Þessu lýsti hann yfir í kjölfar þess að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lagði fram þingsályktunartillögu um að kosningar færu fram 8. júní en tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þingmanna í dag.

Eftir að May tók við sem forsætisráðherra í kjölfar þjóðaratkvæðisins í Bretlandi síðasta sumar, þar sem samþykkt var að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið, var hann settur af sem fjármálaráðherra við uppstokkun í ríkisstjórninni. Í bréfi til kjósenda sinna segist Osborne ekki vilja eyða ævinni sem „fyrrverandi fjármálaráðherra.“ Hann útilokar hins vegar ekki að hann eigi eftir að taka þátt í stjórnmálum á nýjan leik síðar á ævinni.

Osborne segist í bréfinu áfram ætla að berjast fyrir því Bretlandi sem hann elskaði sem ritstjóri dagblaðsins London Evening Standard en hann var fyrr á árinu ráðinn í þá stöðu og tekur formlega við henni á næstunni. „Ég vil Bretland sem er frjálst, opið, fjölbreytt og sem vinnur með öðrum þjóðum að því að verja lýðræðisleg gildi í heiminum.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert