Hafa fundið um fjörutíu fjöldagrafir

Hermenn stjórnarhersins í Austur-Kongó á leið til fjalla.
Hermenn stjórnarhersins í Austur-Kongó á leið til fjalla. AFP

Sameinuðu þjóðirnar segja að sautján fjöldagrafir hafi fundist í Austur-Kongó á landsvæði þar sem blóðug borgarastyrjöld hefur geisað. Skæruliðar nokkurra þjóðarbrota berjast þar við öryggissveitir ríkisstjórnarinnar. 

Átökin brutust út í miðhluta landsins í ágúst er stjórnarhermenn drápu Jean Pierre Mpandi sem leiddi uppreisn gegn forsetanum Joseph Kabila. Grafirnar sautján sem fundust í dag bætast í hóp fjölda annarra sem fundist hafa að undanförnu. Fjöldagrafirnar í Kasai, sem vitað er um, eru því nú um fjörutíu talsins.

Tveir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna voru sendir á svæðið til að rannsaka ofbeldið. Þeim var hins vegar rænt og fundust lík þeirra í fjöldagröf sextán dögum síðar.

„Það er algjörlega nauðsynlegt að ríkisstjórn Austur-Kongó grípi til nauðsynlegra aðgerða svo að hægt verði að framkvæma óháða, gagnsæja rannsókn þar sem staðreyndir um brot á og misnotkun mannréttinda verða dregnar fram,“ segir Zeid Ra'ad Al Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hussein segir að ef ríkisstjórnin verði ekki við því muni hann ekki hika við að biðja alþjóðasamfélagið um stuðning við rannsókn sem myndi ná til Alþjóðastríðsglæpadómstólsins.

Yfirvöld í Austur-Kongó sögðu frá því í síðustu viku að þau hefðu tvo í haldi, grunaða um að hafa myrt starfsmenn Sameinuðu þjóðanna. Annar þeirra slapp hins vegar úr haldi þeirra með aðstoð lögreglumanna. 

Öryggissveitir hersins í landinu hafa verið sakaðar um að beita óþarfa valdi gegn skæruliðum sem eru aðallega vopnaðir kylfum og teygjubyssum. Hins vegar saka Sameinuðu þjóðirnar uppreisnarmennina einnig um að láta börn taka þátt í stríðinu og önnur grimmdarverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert