Leitað vegna sýruárásarinnar

Arthur Collins. Til vinstri er mynd úr eftirlitsmyndavél sem tekin …
Arthur Collins. Til vinstri er mynd úr eftirlitsmyndavél sem tekin var við skemmtistaðinn þar sem árásin var gerð.

Kærasti bresku sjónvarpsstjörnunnar Ferne McCann er grunaður um að tengjast sýruárás á gesti næturklúbbs í London í vikunni. Um tuttugu særðust í árásinni, þar af tveir alvarlega. 

Lögreglan leitar nú Arthurs Collins. Tveggja annarra er einnig leitað vegna árásarinnar en í henni var skvett sýru á gesti næturklúbbsins Mangle E8. Árásin átti sér stað aðfaranótt mánudags.

Lögreglan hefur nú birt myndir úr eftirlitsmyndavélum af Collins sem teknar voru á skemmtistaðnum nóttina sem árásin átti sér stað. Í frétt Sky segir að lögreglan vari fólk við að því að nálgast Collins, verði hann á vegi þess. Hún gerði húsleit á heimili hans í Hertfordshire í tengslum við rannsókn málsins. Tveir voru handteknir en breskir fjölmiðlar segjast hafa heimildir fyrir því að Collins hafi ekki verið á staðnum.

Lögreglan telur að árásarmaðurinn hafi úðað sýru beint í andlit tveggja gesta klúbbsins í kjölfar rifrildis. Enn hefur ekki verið upplýst hvers kyns sýran var.

Unnusta Collins er sjónvarpsstjarnan Ferne McCann og höfðu þau nýverið birst saman á mynd á forsíðu tímaritsins OK! McCann fer með hlutverk í hinni vinsælu sápuóperu The Only Way Is Essex sem hefur m.a. hlotið BAFTA-verðlaun. Parið hefur verið saman í níu mánuði.

Í frétt Sky er haft eftir talsmanni leikkonunnar að hún hafi aðstoðað lögregluna við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert