Óskiljanlegu dómsmáli vísað frá

mbl.is

Allir sem komið hafa nálægt dómstólum á Indlandi vita að hjól réttlætisins snúast einstaklega hægt þar í landi enda álagið á kerfið mikið. En nú hefur Hæstiréttur ákveðið að vísa frá máli sem dómarar við réttinn segja óskiljanlegt með öllu.

Dómararnir segja lagaþvæluna svo mikla að þeir botni ekkert í málinu. „Við verðum að setja þetta til hliðar því það er ekki hægt að skilja þetta,“ hefur Hindustan Times eftir talsmönnum réttarins.

Jafnvel lögmennirnir sem verja málsaðila, landeiganda og leigjanda hans, segjast ekki skilja niðurstöðu undirréttar í málinu sem vísað var svo til Hæstaréttar. 

„Venjulega tekur það okkur tvo daga að undirbúa áfrýjun. En í þessu máli þá tók það mig meira en viku því að staðreyndir málsins voru mjög óljósar,“ segir EC Agrawala, lögmaður landeigandans.

Deilan sem um ræðir á rætur að rekja til ársins 1999 er landeigandinn reyndi að bera út leigjanda sinn þar sem hann hafði ekki greitt leigu.

Nú eru tæplega tveir áratugir liðnir og landeigandinn hefur loksins komið málinu alla leið til Hæstaréttar eftir að undirréttur dæmdi leigjandanum í vil. 

En þegar þangað var komið treysti Hæstiréttur sér ekki til að fjalla um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert