Skutu ökumanninn til bana

Ferðamaður gengur fram hjá múr sem skilur að borgirnar Betlehem …
Ferðamaður gengur fram hjá múr sem skilur að borgirnar Betlehem og Jerúsalem. AFP

Palestínumaður keyrði bíl á strætisvagnastöð á fjölförnum gatnamótum á Vesturbakkanum með þeim afleiðingum að einn særðist. Hermenn skutu ökumanninn til bana, að sögn Ísraelshers.

Sá sem særðist er 60 ára karlmaður og var hann fluttur á sjúkrahús.

Atvikið átti sér stað skammt frá byggð Ísraela á Vesturbakkanum, Gush Etzion, skammt frá borginni Jerúsalem.

Svipuð atvik hafa áður gerst á þessum gatnamótum.

Síðan í október 2015 hefur fjöldi manna fallið í átökum Ísraela og Palestínumanna, þar af 261 Palestínumaður og 41 Ísraeli.

Flestir Palestínumennirnir hafa verið drepnir er þeir hafa framið hnífa-, byssu- eða bílaárásir, að sögn ísraelskra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert