Trump skráð í Kína meðan forsetarnir funduðu

Ivanka og Donald Trump. Þátttaka forsetadótturinnar í samskiptum Bandaríkjanna og …
Ivanka og Donald Trump. Þátttaka forsetadótturinnar í samskiptum Bandaríkjanna og Kína hefur verið gagnrýnt í ljósi viðskiptahagsmunanna sem fyrirtæki hennar á. AFP

Á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti neyttu kvöldverðar saman í opinberri heimsókn Xi til Bandaríkjanna, samþykkti einkaleyfastofa Kína skráningu þriggja vörumerkja Ivönku Trump forsetadótturinnar.

Málið þykir enn á ný vekja á ný upp siðferðispurningar um fyrirtækjarekstur Trump fjölskyldunnar og þá hagsmunaárekstra sem þar geta skapast  við forsetaembættið.

Guardian bendir á að Trump hafi fengið bráðabirgðaleyfi fyrir skráningu á skartgripum, töskum og heilsulindarþjónustu, en að á þessum sama tíma gangi öðrum bandarískum fyrirtækjum æ verr að æ eiga viðskipti við Kína.

Fyrirtæki hennar, Ivanka Trump Marks LLC, hefur frá því að Trump tók við forsetaembættinu þess utan fengið samþykkt fjögur vörumerki af þeim 32 sem óskað hefur verið eftir skráningu á.

„Hefði aldrei leyft þetta“

Ivanka Trump er ekki lengur við stjórnvölin á fyrirtæki sínu, heldur hefur hún nú skrifstofu í Hvíta húsinu. Hún er engu að síður enn eigandi fyrirtækisins og skartar reglulega fatnaði úr eigin línu, þó fyrirtækið sé nú er rekið af sjóði sem aðrir fjölskyldumeðlimir Trump fjölskyldunnar fara með stjórnina á.  

Skóverksmiðja í Huajian sem framleiðir skó úr línu Ivönku Trump.
Skóverksmiðja í Huajian sem framleiðir skó úr línu Ivönku Trump. AFP

„Ivanka hefur margvísleg tengsl við Kína. Engu að síður virðast þau Jared  [Kushner eiginmaður hennar] taka mikinn þátt í samskiptum og stefnumótun gagnvart Kína. Ég hefði aldrei leyft þetta,“ sagði lögfræðingurinn Norman Eisen, sem fór með siðamál í Hvíta húsinu í forsetatíð Barack Obamas. „Fyrir þau sjálf og landið allt, þá ættu Ivanka og Jared að hugleiða að fjarlægja sig þeim málum sem snúa að Kína.“

Bandarísk lög banna embættismönnum ríkisstjórnarinnar að koma að þeim málefnum ríkisins sem geta komið fyrirtækjum þeirra eða maka þeirra vel. Vörulína Trump er framleidd nær alfarið í Kína og viðskiptasamningar ríkjanna geta því komið henni vel.

5 ára dóttirin lærir kínversku

Jamie Gorelick, lögfræðingur Ivönku Trump, sagði í yfirlýsingu að siðavenjur alríkisstofnanna krefjist þess ekki að viðkomandi segi sig frá málum tengdum erlendu ríki þó að viðkomandi eigi fyrirtæki eða sé með vörumerki í skráningu þar.

Guardian segir Ivönku Trump hafa lagt mikið upp úr því að heilla Kínverja undanfarna mánuði. Arabella, fimm ára gömul dóttir hennar, lærir nú mandarín kínversku og söng hefðbundið kínverskt lag fyrir Xi í heimsókn hans. Hlaut flutningur Arabellu mikið lof í kínversku ríkisfjölmiðlunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert