Viðræður hefjast eftir kosningarnar

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Viðræður á milli Evrópusambandsins og breskra stjórnvalda um útgöngu Bretlands úr sambandinu munu ekki hefjast „fyrir alvöru“ fyrr en að loknum þingkosningunum sem boðaðar hafa verið þar í landi 8. júní. Þetta segir Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Independent að þetta sé álit Junckers eftir að hafa rætt í síma við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í síma í gærkvöldi í kjölfar þess að hún tilkynnti að hún ætlaði að leggja til að boðað yrði til kosninga. Tillaga hennar þess efnis var samþykkt fyrr í dag í breska þinginu.

Bresk stjórnvöld hafa sagt að kosningarnar muni ekki tefja fyrir því að viðræðurnar geti hafist en Evrópusambandið hafði áður sagt að viðræður gætu í fyrsta lagi hafist í lok maí þar sem ríki sambandsins þyrftu fyrst að koma sér saman um það nákvæmlega hverju yrði reynt að ná fram í viðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert