Höfðu 380 milljónir af kaupsýslumanni

Glæpatíðni í Japan er almennt lág.
Glæpatíðni í Japan er almennt lág. AFP

Þrír grímuklæddir menn rændu skjalatösku úr höndum kaupsýslumanns sem hafði nýlokið við að taka út mjög háa fjárhæð úr banka í borginni Fukuoka í vesturhluta Japans á fimmtudag. Lögreglan segir að í töskunni hafi verið 380 milljónir jena, sem samsvarar um 385 milljónum íslenskra króna.

Atvikið átti sér stað um hábjartan dag. Kaupsýslumaðurinn, sem er 29 ára gamall, var að bera þunga töskuna yfir bílastæði í miðborg Fukuoka þegar ræningjarnir létu til skarar skríða. 

Þeir sprautuðu efni, sem talið er vera táragas, framan í manninn og stungu síðan af með töskuna í bifreið.

Fram kemur í frétt AFP-fréttaveitunnar að það sé algengt að fólk noti reiðufé í miklum mæli í Japan. Það sé aftur á móti óvenjulegt að einhver gangi um með svo háa fjárhæð í farteskinu, en talið er að taska mannsins hafi vegið tæp 40 kíló.

Glæpatíðni í Japan er almennt mjög lág og eru t.d. rán og vasaþjófnaðir sjaldgæf. Hins vegar eru þar starfandi glæpasamtök, yakuza, sem ráða lögum og lofum í undirheimum landsins.

Í desember var svo greint frá því í fjölmiðlum að þjófar, sem voru klæddir eins og lögreglumenn, hafi komist undan með gull að verðmæti fimm milljónir dala (um 550 milljónir kr.) í Fukuoka. Þjófarnir höfðu einfaldlega beðið hóp manna sem báru gullið í skjalatöskum að afhenda það. 

Lögreglan í borginni hefur hins vegar neitað að staðfesta þessi tíðindi, en talið er að þetta hafi gerst í júlí í fyrra. Talið er að skipulögð glæpasamtök standi á bak við þjófnaðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert