20 látist í mótmælum í Venesúela

Nakinn maður mótmælir ríkisstjórn Nicolas Maduro í Caracas höfuðborg Venesúela.
Nakinn maður mótmælir ríkisstjórn Nicolas Maduro í Caracas höfuðborg Venesúela. AFP

Að minnsta kosti ellefu létu lífið og sex særðust í mótmælum í höfuðborginni Caracas í Venesúela í nótt. Á síðustu þremur vikum hafa um 20 manns látist í mótmælum sem beinast gegn rík­is­stjórn Nicolas Maduro, for­seta lands­ins. 

Til átaka hefur komið milli mótmælenda og óeirðalögreglu sem hefur beitt táragasi til að hafa hemil á mótmælendum. Mótmælendur hafa kastað öllu lauslegu á lögreglu og kallað lögreglumenn morðingja.

„Þetta var eins og í stríði,“ segir Venesúelamaðurinn Carlos Yane um mótmælin í nótt. Hann segir lögregluna hafa beitt táragasi og vopnaðir borgarar hafi skotið á byggingar og hent molotov-kokteil í lögreglubifreið. Fjölskylda Yane henti sér í gólfið þegar lætin voru sem mest.  

Tæplega sextíu börn sem voru á spítala í borginni þurftu að yfirgefa bygginguna í skyndingu í nótt. Tvennum sögum fer að því hvers vegna það var en óttast var um öryggi þeirra. 

Nicolas Maduro er mjög umdeildur og eru sjö af hverjum 10 íbúum Venesúela á móti honum samkvæmt skoðanakönnun. Kjörtímabili hans lýkur ekki fyrr en árið 2019. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert