Bandarískur smábær til sölu

Smábærinn Tiller er á skógivöxnu svæði í Oregon.
Smábærinn Tiller er á skógivöxnu svæði í Oregon.

Smábærinn Tiller í Oregon í Bandaríkjunum er til sölu. Nánast í heild sinni. Fyrir 3,5 milljónir dala, um 380 milljónir króna, er hægt að fá sex hús, verslunarhúsnæði, bensínstöð og jörðina sem pósthúsið stendur á. Tilboðinu fylgja einnig vatnsréttindi, innviðir s.s. götur og gangstéttir og rafstöð. Grunnskólinn í bænum verður hins vegar seldur sér á 350 þúsund dollara eða um 38 milljónir króna.

Í frétt AP-fréttastofunnar kemur fram að þegar hafi nokkrir áhugasamir kaupendur stigið fram. Enn á eftir að fara yfir tilboðin og meta þau.

Tiller var við upphaf 20. aldar blómlegur bær í nágrenni mikils skóglendis. Helsta atvinnugreinin var timburvinnsla. Pósthúsið var opnað árið 1902 og námaverkamenn, skógarhöggsmenn og kúrekar streymdu í bæinn sem stendur við gjöfula á. 

Á fimmta og sjötta áratugnum var timburframleiðslan mikil og ákveðið var að byggja grunnskóla og opna verslun. 

En fyrir um þremur áratugum síðan gerðu hertar reglur um umhverfisvernd það að verkum að timburverksmiðjunum var lokað. Í kjölfarið fluttu íbúarnir á brott. Einn íbúi tók þá að sanka að sér eignum í bænum og þegar hann lést fyrir þremur árum átti fjölskyldan hans næstum allan bæinn.

Búið er í sveitunum í nágrenni Tiller. Mörgum þykir ákveðin tækifæri geta falist í kaupum á bænum, m.a. í ferðaþjónustu og þjónustu við sveitafólkið.

Fasteignaauglýsinguna má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert