Bútaði líkið í sundur og henti í ána

Lögreglumenn standa vörð í Bangkok á Taílandi.
Lögreglumenn standa vörð í Bangkok á Taílandi. AFP

Spænskur maður hefur verið dæmdur til dauða í Taílandi fyrir að hafa myrt landa sinn en sundurlimað lík hans fannst í stærstu á borgarinnar Bangkok á síðasta ári.

Artur Segarra, 38 ára, var fundinn sekur um að hafa rænt David Bernat í von um að hafa af honum peninga og í framhaldinu myrt hann.

Blóðblettir og fingraför fórnarlambsins fundust á vél sem Segarra notaði til að búta líkið í sundur. Myndefni úr öryggismyndavélum og vitnisburður vinnukonu Segarra og kærustu hans bendluðu hann einnig við morðið.

Lögreglan telur að Segarra hafi haldið Bernat í íbúð sinn í Bangkok í þó nokkra daga og reynt að kúga út úr honum fé. Á endanum myrti hann Bernat og fleygði líkamspörtum hans í ána Chao Praya.

Segarra neitaði öllum ákærum vegna málsins. Þrátt fyrir að hafa verið dæmdur til dauða er sjaldgæft að fangar séu teknir af lífi í Taílandi. Síðasta aftakan þar í landi var árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert