„Fordæmalaus“ flótti yfir hafið

Björgunarskip við ofhlaðna báta undan ströndum Líbýu á Miðjarðarhafinu um …
Björgunarskip við ofhlaðna báta undan ströndum Líbýu á Miðjarðarhafinu um páskana. AFP

Um 100 flóttamenn drukknuðu í Miðjarðarhafinu um páskana og þar með er tala þeirra sem farist hafa á ferð sinni yfir hafið í ár komin yfir þúsund. 

Samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa 1.073 manns annaðhvort farist eða er saknað eftir flótta út á hafið í ár. Fjöldinn nú er því orðinn meiri en hann var fyrir ári. Þá höfðu 853 drukknað eða var saknað. 

Um 8.000 flóttamönnum var um páskana bjargað úr sjónum eða bátum og skipum í háska á hafinu. Fólkið segir að um 100 manns úr þeirra hópi hafi týnt lífi á leiðinni.

Hjálparsamtök og stofnanir sem starfa við björgun á Miðjarðarhafi segja að ástandið nú eigi sér engin fordæmi. Starfsmenn þeirra segja að þeir, sem bjargað var um páskana, hafi margir komið frá Líbýu þar sem átök geisa víða. Flóttafólkið hefur sagt að mun fleiri muni fylgja í kjölfarið. Samtökin kalla eftir aukinni aðstoð Evrópusambandsins við að taka á vandanum.

Meira en 36.700 flóttamönnum hefur verið bjargað af Miðjarðarhafinu og þeir fluttir til Ítalíu á þessu ári. Það eru 45% fleiri en á sama tíma í fyrra. 

Staðfest er að 150 þeirra sem hafa drukknað eru börn en Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, telur að fjöldinn sé meiri.

„Það er mikið áhyggjuefni að fólk í viðkvæmri stöðu, þeirra á meðal þúsundir barna, hætti lífi sínu til að komast að ströndum Evrópu og nota til þess þessa hættulegu flóttaleið,“ segir Afshan Khan, sérfræðingur UNICEF í flóttamannamálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert