Fyrsta aftakan í Arkansas í 12 ár

Andstæðingur dauðarefsinga fyrir utan hæstarétt Bandaríkjanna á síðasta ári.
Andstæðingur dauðarefsinga fyrir utan hæstarétt Bandaríkjanna á síðasta ári. AFP

Yfirvöld í Arkansas-ríki í Bandaríkjunum hafa framkvæmt sína fyrstu aftöku í rúman áratug, þrátt fyrir að þau hafi verið gagnrýnd fyrir að flýta dauðarefsingum þó nokkurra fanga.

Ástæðan fyrir því að aftökunum verður flýtt er að eitt lyfjanna sem eru notuð við aftökur í ríkinu er að renna út.  

Ledell Lee, sem er 51 árs, var tekinn af lífi í gær eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði beiðni sem kom fram á síðustu stundu um að fresta aftökunni. Lee hlaut banvænan skammt af þremur lyfjum. Hann var dæmdur til dauða fyrir að berja Debru Reese til bana með felgujárni árið 1993.

Alríkisdómari í Arkansas hafði áður komið í veg fyrir áform yfirvalda í ríkinu um að taka Lee og fleiri fanga af lífi.

 

 

„Í kvöld var framfylgt lögmætum dómi sem kviðdómur komst að niðurstöðu um í réttarsal eftir áratuga hindranir,“ sagði Leslie Rutledge, saksóknari í Arkansas, í yfirlýsingu eftir aftökuna, sem var sú fyrsta frá árinu 2005.

Þrír menn til viðbótar verða teknir af lífi í ríkinu í þessum mánuði. Upphaflega ætluðu yfirvöld í Arkansas að taka átta fanga af lífi frá 17. til 27. apríl en mál nokkurra þeirra eru til meðferðar hjá lögfræðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert