Hótelið opnar á ný eftir árásirnar

Hótelið var opnað aftur í vikunni eftir árásirnar en nú …
Hótelið var opnað aftur í vikunni eftir árásirnar en nú undir nýju nafni. AFP

Réttarhöld yfir 33 einstaklingum, þar af sex lögreglumönnum, vegna skothríðar við hót­el í Sous­se í Túnis árið 2015 hefjast 26. maí næstkomandi. Í árásinni létust 38 manns, flestir þeirra voru breskir ferðamenn. 

Lögreglumönnunum sex sem verða sóttir til saka er gefið að sök að koma ekki fólki í neyð til bjargar. Rann­sókn breskra stjórn­valda á aðdrag­anda árás­ar­inn­ar leiddi í ljós að lög­regl­an brást ekki nógu hratt og vel við. Voru viðbrögðin sögð nálg­ast það að telj­ast hug­laus.

Ríki íslams lýsti ábyrgð á til­ræðinu á hend­ur sér.

Bresk yfirvöld ráða ferðamönnum enn frá því að sækja Túnis heim þrátt fyrir að 20 mánuðir séu liðnir frá árásinni. Stjórnvöld í Túnis vilja að bresk stjórnvöld hætti að vara fólk við að ferðast að óþörfu til Túnis. 

Á þriðjudaginn opnaði hótelið á ný en það hefur verið lokað frá árásinni 26. júní árið 2015. Hótelið fékk nýtt nafn og nefnist nú Kantaoui Bay Hotel í stað Imperial Marhaba Hotel. 

Fyrir árásina fóru að meðaltali um 400 þúsund Bretar til Túnis árlega en í fyrra voru þeir um 20 þúsund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert