„Sláðu mig! Komdu bara“

Atvikið átti sér stað skömmu fyrir flugtak á alþjóðaflugvellinum í …
Atvikið átti sér stað skömmu fyrir flugtak á alþjóðaflugvellinum í San Francisco. AFP

Bandaríska flugfélagið American Airlines hefur vikið starfsmanni frá störfum í kjölfar alvarlegs atviks sem átti sér stað um borð í farþegaþotu skömmu fyrir flugtak frá alþjóðaflugvellinum í San Francisco. Starfsmaður flugfélagsins er sakaður um að hafa hrifsað barnakerru harkalega af móður.

Annar farþegi um borð í vélinni tók myndskeið af atvikinu og setti það á netið. Hann segir að kerran hafi slegist í móðurina þegar þetta gerðist, að því er segir á vef BBC. Hann segir enn fremur að það hefði litlu munað að vagninn hefði hæft barnið.

Móðirin sést í mikilli geðshræringu er aðrir um borð koma henni til aðstoðar og reyna að skakka leikinn.

Starfsmaðurinn heyrist hrópa: „Sláðu mig! Komdu bara,“ þegar karlmaður hefur af honum afskipti. 

Talsmenn American Airlines hafa beðið konuna og fjölskyldu hennar afsökunar á þessu.

Aðeins er liðinn hálfur mánuður frá því þegar farþegi var beittur hörku og dreginn út úr farþegaþotu United Airlines því vélin var yfirbókuð.

Nýjasta atvikið átti sér stað á alþjóðaflugvellinum í San Francisco skömmu fyrir flugtak, en vélin átti að fljúga til Dallas/Fort Worth. 

Í myndskeiðinu heyrist farþegi krefjast þess að fá að vita hvað umræddur starfsmaður heiti. Þá gengur maður klæddur í einkennisfatnað American Airlines inn í farþegaþotuna og farþeginn bregst við með því að segja: „Heyrðu félagi! Ef þú gerir þetta við mig þá mun ég kýla þig kaldan.“

Starfsmaðurinn sem hrifsaði vagninn af móðurinni segir við farþegann að hann viti ekki einu sinni hvað gerðist. Farþeginn svarar þá: „Mér er alveg sama hvað gerðist. Það munaði litlu að þú meiddir barn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert