„Sonur minn var pyntaður“

Talið er að maðurinn hafi þénað tugmilljónir dala á athæfi …
Talið er að maðurinn hafi þénað tugmilljónir dala á athæfi sínu. Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Rússneskur þingmaður er ævareiður yfir því að sonur hans hafi verið dæmdur í 27 ára fangelsi fyrir tölvuglæpi í Bandaríkjunum. 

Roman Valeryevich Seleznev, sem er 32 ára, var í ágúst í fyrra dæmdur fyrir að stela greiðslukortaupplýsingum frá bandarískum veitingastöðum. Tjónið er metið á 170 milljónir dala, eða sem samsvarar 18,6 milljörðum króna. 

Rússneski þingmaðurinn Valery Seleznev segir að mannætur hafi kveðið upp dóminn og að syni sínum hafi verið rænt, að því er fram kemur á vef BBC. 

Bandarísk yfirvöld segja að sonurinn hafi grætt margar milljónir dala á því að selja upplýsingarnar á netinu. 

Þingmaðurinn, sem á sæti í neðri deild rússneska þingsins, er bandamaður Vladimírs Pútins Rússlandsforseta, að því er New York Times greinir frá. 

„Sonur minn var pyntaður, því það að vera í fangelsi í erlendu ríki í kjölfar mannráns er pynting í sjálfu sér. Hann er saklaus,“ sagði þingnmaðurinn í samtali við rússnesku fréttastofuna RIA Novosti. 

Hann bætti við að dómurinn væri í raun lífstíðarfangelsi því sonur hans myndi aldrei lifa af 27 ára fangelsisvist. 

Fram kemur í frétt BBC, að sonurinn hafi á milli áranna 2009 og 2013 brotist inn í sölukerfi fyrirtækja og komið fyrir forriti sem gerði honum kleift að komast fyrir milljónir greiðslukortanúmera hjá yfir 500 bandarískum fyrirtækjum og 3.700 fjármálastofnunum. 

Hann sendi síðan upplýsingarnar yfir í netþjóna sem hann stjórnaði í Rússlandi, Úkraínu og í McLean í Virginíu. Hann seldi síðan upplýsingarnar á sérstökum síðum þar sem menn stunda kaup og sölu á slíkum upplýsingum. 

Hann var handtekinn í júlí 2014 á Maldíveyjum. Yfir 1,7 milljónir stolinna greiðslukortaupplýsinga fundust þá í fartölvunni hans. Sannað er að hann hafi þénað tugmilljónir dala á meðan þessu stóð. 

Mörg smá fyrirtæki urðu fyrir barðinu á Seleznev, m.a. Broadway Grill í Seattle sem varð gjaldþrota í kjölfar árásarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert