Helmingur styður Íhaldsflokkinn

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Helmingur Breta styður Íhaldsflokk Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Tilefni könnunarinnar eru þingkosningar sem May boðaði óvænt til í júní næstkomandi.

Fyrirtækið ComRes framkvæmdi skoðanakönnunina fyrir götublaðið Sunday Mirror. Þar kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn síðan í janúar 1991 sem breski Íhaldsflokkurinn nær hinum táknræna 50 prósenta stuðningi.

Frá Eastgate-götu í Chester í norðurhluta Englands.
Frá Eastgate-götu í Chester í norðurhluta Englands.

Samkvæmt könnuninni, sem var gerð á netinu, bætir flokkurinn við sig fjórum prósentustigum frá því í síðustu könnun sem var gerð í síðustu viku. Fylgi breska Verkmamannaflokksins er það sama og síðast, eða 25%.  

Tæpar sjö vikur eru þangað til kosningarnar hefjast, eða 8. júní.

Andrew Hawkins, formaður ComRes, varaði við því að stuðningsmenn Íhaldsflokksins gætu orðið værukærir í kosningunum.

„Það er gott vandamál fyrir flokkinn en það er einnig áskorun í kosningum þar sem kjörsóknin gæti orðið lítil og þar með haft í för með sér ófyrirsjáanlega útkomu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert