Hjálparsamtök í samvinnu með smyglurum

Flóttamenn bíða þess að verða bjargað í Miðjarðarhafinu.
Flóttamenn bíða þess að verða bjargað í Miðjarðarhafinu. AFP

Ítalskur saksóknari sakar hjálparsamtök sem bjarga flóttamönnum við Miðjarðarhafið um samvinnu við smyglara. Carmelo Zuccaro, saksóknarinn, fullyrti við dagblaðið La Stampa að hann byggi yfir sönnunum þess efnis og benti meðal annars á símtöl sem færu á milli Líbýu og til björgunarbáta starfsmanna hjálparsamtakanna. BBC greinir frá.   

Hjálparsamtökin hafa svarið af sér þessar ásakanir um samvinnu og segjast eingöngu einbeita sér að því að bjarga mannslífum. 

„Við erum með sannanir sem sýna bein tengsl milli nokkurra hjálparsamtaka og líbýskra smyglara,“ segir Zuccaro við blaðið. Hann benti á að meðal annars ættu sér stað símtöl milli þeirra og auk þess notuðu hjálparsamtökin sérstaka lampa á sjónum til að vísa bátunum veginn. Einnig væri slökkt á sendum í bátum svo ekki væri hægt að rekja ferðir þeirra á siglingunni. Hann tók jafnframt fram að hann myndi ekki hefja rannsókn á málinu.   

Flestir flóttamenn reyna að komast fyrst til Ítalíu með því að sigla yfir Miðjarðarhafið og síðan áfram til annarra Evrópuríkja.    

Að minnsta kosti þúsund manns hafa drukknað milli Líbýu og Ítalíu á þessu ári, samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Á sama tíma hefur tæplega 37 þúsund manns verið bjargað og nemur sú fjölgun um yfir 40% frá árinu áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert