Rússar sagðir hafa hlerað Dani

AFP

Varnarmálaráðherra Danmerkur segir að rússnesk stjórnvöld hafi hlerað samskipti danska hersins og ráðuneytisins á árunum 2015 og 2016. Þetta segir Claus Hjort Frederiksen í samtali við Berlingske.

Hann segir að hópur tölvuhakkara, sem sé undir stjórn rússneskra stjórnvalda, hafi með ólögmætum hætti komist yfir tölvupóstaðganga starfsmanna ráðuneytisins og hersins. 

Frederiksen segir að árásirnar hafi verið þaulskipulagðar og að þarna séu ekki á ferðinni smáir hópar sem eru að gera þetta sér til gamans. 

Greint er frá tölvuárásinni í nýrri skýrslu Miðstöðvar um tölvuöryggi og þar kemur fram að tölvuþrjótarnir hafi ekki komist yfir leynilegar upplýsingar. Þrátt fyrir það séu slíkar árásir skaðlegar dönskum öryggishagsmunum. 

Hópurinn sem ber ábyrgð á árásinni kallast Fancy Bear. Sami hópur ber jafnframt ábyrgð á stórum leka hjá Alþjóða lyfjaeftirlitinu WADA og árás á kosningaskrifstofu bandaríska Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember sl. 

Frederiksen segir að hópurinn tengist rússnesku leyniþjónustunni eða hluta af innsta kjarna rússnesku ríkisstjórnarinnar. Það sé stanslaus barátta að halda þeim i skefjum. 

Þá segir hann að hægt sé að nýta upplýsingarnar til að ráða til starfa njósnara sem leika tveimur skjöldum, til fjárkúgunar og til að skipuleggja frekari árásir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert