Söguleg ökuferð 12 ára drengs stöðvuð

Drengurinn ætlaði að aka til borgarinnar Perth í vesturhluta Ástralíu.
Drengurinn ætlaði að aka til borgarinnar Perth í vesturhluta Ástralíu. Ljósmynd/Wikipedia

Tólf ára drengur sem ætlaði að keyra þvert yfir Ástralíu í gegnum afskekkt svæði var stöðvaður af umferðarlögreglunni eftir að hafa ekið rúmlega eitt þúsund kílómetra leið.

Drengurinn var handtekinn í borginni Broken Hill, sem er í um fjórtán klukkustunda fjarlægð í bíl þaðan sem hann hóf ferðalag sitt í þorpinu Kendall í austurhluta Ástralíu.

Hann ætlaði sér að aka um fjögur þúsund kílómetra leið til borgarinnar Perth, sem er í vesturhluta landsins.

Lögreglan stöðvaði hann vegna þess að stuðarinn á bíl hans var laus og hafði hann dregist eftir veginum, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Nýju-Suður-Wales.

Rúmlega fjörutíu klukkutíma tekur að aka frá Kendall til Perth. Meðal annars þarf að aka í gegnum harðneskjulegar eyðimerkur. Þeir sem keyra í gegnum Nullarbor-eyðimörkina eru hvattir til að taka með sér auka bensín og nóg af vatni og mat. Ferðamönnum er ráðlagt að aka í gegnum hana á sex dögum.

Rannsókn lögreglunnar stendur yfir. Enn sem komið er er óljóst hvers vegna drengurinn lagðist í þetta mikla ferðalag á bíl, aðeins tólf ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert