Macron „geðugur og upplýstur“

Kjósendur munu velja milli þeirra Emmanuel Macron og Marine Le …
Kjósendur munu velja milli þeirra Emmanuel Macron og Marine Le Pen þann 7. maí. AFP

Úrslitin í fyrri hluta frönsku forsetakosninganna virðast hafa gengið í takt við það sem niðurstöður skoðanakannana bentu til, segir Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi. Hann telur ólíklegt að endanleg niðurstaða forsetakosninganna hafi áhrif á samskipti Íslands og Frakklands.

Flest at­kvæði í kosningunum í gær fengu miðjumaður­inn Emm­anu­el Macron, sem fékk 23,75% at­kvæða, og Mar­ine Le Pen, full­trúi Þjóðern­is­flokks­ins, sem  fékk 21,53%. Kosið verður því milli þeirra tveggja í seinni umferðinni 7. maí nk..

„Úrslitin virðast hafa gengið í takt við það sem niðurstöður skoðanakannana hafa bent til og þau tvö sem fara áfram núna, hafa átt mestu fylgi að fagna frá því í lok janúar,“ segir Kristján Andri.

„Það varð til að auka aðeins á spennuna að það dró saman með fjórum efstu frambjóðendunum tvær síðustu vikurnar fyrir kosningar. Síðan bentu kannanir líka til þess að kjörsókn yrði með dræmara móti.“ Hann segir kosningaþátttöku í Frakklandi venjulega hafa verið um 80% og að lítil breyting hafi orðið á því nú. „Þannig að þær spár rættust nú ekki.“

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi, telur endanleg úrslit …
Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Frakklandi, telur endanleg úrslit forsetakosninganna ólíklegt til að hafa áhrif á samband Íslands of Frakklands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Enn fremur hafi það líka sýnt sig að margir voru óákveðnir í aðdraganda kosninganna.  „Í byrjun mánaðar var það alveg einn af hverjum þremur, en svo lækkaði hlutfallið og var komið niður í einn af hverjum fjórum í byrjun síðustu viku.“ Segir Kristján Andri það hafa þótt benda til þess að fleiri hafi ætlað sér að kjósa „strategískt“, þ.e. að tryggja að atkvæði þeirra hefði áhrif.

Hann bendir á að ekki þurfi að skoða stefnu þessara tveggja frambjóðenda lengi til að sjá að stefnumál þeirra eru mjög ólík, ekki hvað síst í málefnum innflytjenda og flóttamanna, sem og í Evrópumálum.

Farsæl og góð samskipti

„Þetta fór þó glettilega nærri því sem spár höfðu gert ráð fyrir,“ bætir hann við en sú hefur ekki alltaf verið raunin í kosningum undanfarið.

Sjálfur hefur hann ekki hitt Le Pen, en hann hefur hitt Macron sem hann segir vera vel þekktan í París. „Hann var ráðgjafi Hollande í utanríkismálum áður en hann varð efnahagsráðherra í ríkisstjórn hans og er vel þekktur í diplómatískum kreðsum,“ segir Kristján Andri. „Hann kemur fyrir sjónir sem ágætlega geðugur og vel upplýstur maður.“

Seinni umferð forsetakosninganna fer fram eftir hálfan mánuð og benda skoðanakannanir til þess að Macron fari þar með sigur af hólmi. Kristján Andri telur ekki ástæðu til að telja að það hafi áhrif á samskipti Íslands og Frakklands hvort Le Pen eða Macron verði næsti forseti Frakklands. „Ísland og Frakkland hafa átt afskaplega farsæl og góð samskipti lengi og það er engin ástæða til að ætla að það verði breyting á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert