Viðbrögð við niðurstöðunni

AFP

Stjórnmálaleiðtogar víða um heim hafa tjáð sig um niðurstöðu fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna þar sem miðjumaðurinn og Evrópusambandssinninn, Emmanuel Macron hlaut flest atkvæði og Marine le Pen, leiðtogi þjóðernisflokksins Front National, næst flest. Meðal þeirra er talsmaður forseta Rússlands og forseti framkvæmdastjórnar ESB en enn hefur ekkert heyrst frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Að minnsta kosti ekki á Twitter.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, óskaði Macron góðs gengis í seinni umferðinni og Federica Mogherini, sem fer með utanríkismál hjá framkvæmdastjórninni, skrifar á Twitter að því fylgi von og framtíð fyrir okkar kynslóð.

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðum við Bretland, varar við því að verði le Pen kjörin forseti geti það þýtt að Frakkar fjarlægðust sambandið. „Ættjarðarvinir og Evrópubúar, ég set traust mitt á Emmanuel Macron þann 7. maí. Frakkland verður að vera áfram hluti af Evrópu,“ skrifar Barnier á Twitter en hann er franskur.

Talsmaður Vladimír Pútín, Dmitrí Peskov, segir að Rússar muni virða niðurstöðuna og það sé þeim í hag að byggja upp góð tengsl. Stjórnvöld í Rússlandi hafa staðið á bak við le Pen í kosningabaráttunni en hún heimsótti Pútín í Moskvu skömmu fyrir kosningarnar.

Steffen Seibert, talsmaður kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, óskar Macron til hamingju og að honum gangi vel í kosningabaráttunni næstu tvær vikur. Það viti á gott að stefna hans félagslegu markaðskerfi og sterku Evrópusambandi sé að ná til kjósenda.

 Utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, segist sannfærður um að Macron verði næsti forseti Frakklands og þá um leið reki á brott öfgahægri stefnu lýðhyggju gegn ESB.  Hann segist fagna því að eini sanni Evrópusinninn hafi fengið flest atkvæði í fyrri umferðinni.

Formaður hægri þjóðernisflokksins FPO, Heinz-Christian Strache, óskaði le Pen til hamingju með árangurinn sem sé sögulegur. Evrópskir ættjarðarvinir geti fagnað skrefi framá við. Gömlu regluverksflokkarnir og ótrúverðugir frambjóðendur þeirra muni að lokum hverfa af vettvangi víðsvegar um Evrópu. Fulltrúar sem hafa reynt að eyðileggja Evrópu árum saman, skrifar hann á Facebook.

Hann efast um að le Pen takist að hafa betur í seinni umferðinni þar sem gömlu flokkarnir í Frakklandi hafi ákveðið að standa við bakið á Macron í seinni umferðinni. En þetta sé aðeins spurning um tíma. Fleiri og fleiri almennir borgarar hafa fengið sig fullsadda af kerfinu sem ber ábyrgð á hamförum sem nú eru í álfunni.

George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, fagnaði niðurstöðunni og óskar vini sínum Emmanuel Macron til hamingju. Að miðjan hafi betur. 

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, hefur vissar efasemdir um niðurstöðuna og segir of snemmt að fagna en Evrópa þurfi á manni að halda sem takist á við vanda með opnum huga og til í að gera breytingar í Frakklandi. Gangi þér vel, skrifar Rasmussen til Macron.

Utanríkisráðherra Noregs, Borge Brende, segir þörf á meira samstarfi í Evrópu frekar en minna og fagnar niðurstöðinni. 

Geert Wilders, þingmaður og formaður hollenska Frelsisflokksins, styður le Pen og segir niðurstöðuna jákvæða fyrir ættjarðarvini í Frakklandi, menn sem styðji aukið sjálfstæði ríkisins og minni afskipti ESB og færri innflytjendur. 

Hann segist hafa sent le Pen hamingjuóskir og von um að hún hafi betur í seinni umferðinni. „Ég vonast eftir forseta le Pen.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert