2.200 kíló en vinsæll á Tinder

Sudan er mjög vinsæll á Tinder.
Sudan er mjög vinsæll á Tinder.

Líkt og fleiri einstaklingar af karlkyni elskar Sudan að vera úti í náttúrunni og ferðast. Á síðunni hans í Tinder-stefnumótaappinu stendur: „Ég vil ekki vera framhleypinn en ég er síðasta von tegundar minnar.“

Það eru orð að sönnu. Sudan er síðasta karldýrið í heiminum af annarri af tveimur undirtegundum hvíta nashyrningsins. Hann er því í örvæntingarfullri leit að maka og hefur því verið skráður á stefnumótasíðuna Tinder. 

„Ég stend mig vel undir tímapressu. Ég elska að éta gras og að flagmaga í drullunni. Engin vandamál. Er 1,8 m á hæð og 2.200 kíló, ef það skiptir einhvern máli.“

Umhverfisverndarsinnar vonast til þess að með því að skrá Sudan, sem býr í Kenía, á Tinder veki það athygli á þeirri alvarlegu útrýmingarhættu sem tegund hans er í. Þeir vonast til að geta safnað nægu fjármagni til að framkvæma frjósemisaðgerð því að aðgerðir til að reyna að láta hann maka sig við kvendýr með „náttúrulegum hætti“ hafa hingað til brugðist.

Vísindamennirnir ætla að nota sæði úr Sidan til að frjóvga egg úr öðru af tveimur kvendýrum af tegundinni sem til eru í heiminum. Kvendýrin heita Satu og Najin og eru sautján og 27 ára gamlar. Sjálfur er Sudan orðinn 43 ára og því nokkuð aldraður af nashyrningi að vera. Hið frjóvgaða egg verður svo sett upp í legi skildrar nashyrningstegundar, tegundar sem er mun algengari. 

Erfitt að aðstoða við mökin

„Við reyndum allt til að fá þá til að maka sig með náttúrulegum hætti,“ segir Elodie Sampere, markaðsstjóri Ol Pejeta-friðlandsins í Kenía en þar hafast allir þrír nashyrningarnir við. „Þegar hann reyndi fyrst að eiga mök við kvendýrið þá reyndu dýrahirðarnir að aðstoða hann... en það er erfitt þegar kemur að nashyrningum.“

Veiðiþjófar eru helsta ógnin sem steðjar í dag að nashyrningum í útrýmingarhættu. Þeir höggva af þeim hornin, lífs eða liðnum, og selja. Kílóverðið af horni er hærra en af gulli og kókaíni. Hornin eru svo mulin og notuð sem frygðarlyf í Asíu. Slíkt er þó byggt á mikilli mýtu og misskilningi því efnið í hornunum er það sama og í fingur- og tánöglum mannfólks. 

Sudan er mjög vinsæll á Tinder. Svo margir hafa smellt á tengil á Tinder-síðunni hans að heimasíða friðlandsins þar sem hann býr hrundi.

Hér getur þú fræðst meira um Sudan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert