Ekki London heldur Raqqa

Islam Maytat er 23 ára gömul ekkja með tvö börn.
Islam Maytat er 23 ára gömul ekkja með tvö börn. AFP

Islam Maytat taldi að með því að ganga í hjónaband með afgönskum/breskum kaupsýslumanni væri henni tryggð örugg framtíð í tískuheimi Lundúnaborgar. Þess í stað varð hún ekkja í skugga vígamanna í Sýrlandi. 

Maytat, sem er frá Marokkó, er aðeins 23 ára gömul en þrátt fyrir það hefur hún búið víð skelfilegar aðstæður í norðurhluta Sýrlands - í kalífadæmi Ríkis íslams, í þjú ár. Hún á þrjú hjónabönd að baki, ekkja í tvígang og einn skilnað. 

Tugir þúsunda útlendinga hafa gengið til liðs við hryðjuverkahópa í Sýrlandi, þar á meðal konur sem eru hvattar til að ganga að eiga vígamenn og ala þeim börn.

Grunlaus um fyrirætlanir eiginmannsins

Einhverjar þeirra, líkt og Maytat, eru tældar í hjónaband án þess að hafa hugmynd um að eiginmaðurinn stefnir á að taka þátt í starfsemi vígasamtaka. 

Maytat ræddi við fréttamann AFP eftir að henni tókst að flýja úr höfuðvígi Ríkis íslams í Norður-Sýrlandi, borginni Raqqa, á svæði sem hersveitir, sem njóta stuðnings Bandaríkjahers, ráða yfir. Hún er í borginni Qamishli en þar eru flestir íbúanna Kúrdar.

Islam Maytat með börnin sín tvö: Maria og Abdullah.
Islam Maytat með börnin sín tvö: Maria og Abdullah. AFP

Þegar Maytat ræðir við fréttamanninn er hún með tíu mánaða gamla dóttur sína, Mariu, í fanginu. „Eftir að ég kynntist eiginmanni mínum ákvað ég að læra tískuhönnun í Evrópu en ekkert varð úr þeim áætlunum. „Allt fór á versta veg,“ segir hún.

Hún kynntist Khalil Ahmed, afgönskum Breta, sem starfaði sem verðbréfamiðlari í Dubai, á netinu snemma árs 2014. Þau gengu í hjónaband tveimur mánuðum síðar í heimalandi hennar Marokkó. Þaðan fóru þau til Dubai þar sem hún hafnaði í flókum lygavef og ferðalagi um Miðausturlönd. Ferðalagi sem endaði í Sýrlandi.

Ahmed reyndist vera harður húsbóndi sem taldi það hlutverk sitt að stjórna heimilinu með harðri hendi. Hún mátti hvorki ganga áberandi klædd né nota snyrtivörur. Eftir stutta heimsókn til Afganistan þar sem hún var kynnt fyrir fjölskyldu hans vildi Maytat fara til London og komast að sem nemi í hönnun.

Islam Maytat.
Islam Maytat. AFP

Ahmed lagði til að þau færu til Istanbul og sannfærði Maytat að þannig yrði það auðveldara fyrir þau að flytja til London. En við komuna til Tyrklands fóru þau beint til borgarinnar Gaziantep sem er við landamæri Sýrlands.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa lengi verið sökuð um að snúa blinda auganu að ferðalögum vígamanna Ríkis íslams yfir landamærin til Sýrlands. Eins vöruflutningum og flutningi á fjármunum yfir landamærin. Þessu hafa yfirvöld alltaf neitað. 

Í Gaziantep fluttu þau Maytat og Ahmed í hús þar sem fjölmörg pör frá Sádi-Arabíu, Alsír og Frakklandi bjuggu. „Ég spurði þau hvers vegna þau væru þarna? Svarið var að við værum að flytja í kalífadæmið í Sýrlandi,“ segir Maytat.

Í júní 2014 lýsti Ríki íslams yfir sjálfskipuðu kalífadæmi í Sýrlandi og Írak þar sem sett voru saría-lög.

AFP

„Ég grét. Þetta var tveimur vikum eftir að kalífadæminu var lýst yfir og konurnar endurtóku stöðugt, við erum að fara í land kalífanna, land múslíma og þær væru svo hamingjusamar,“ segir Maytat.

Þú verður að hlýða mér

Í ágúst 2014 fóru hjónin Ahmed og Maytat yfir landamærin til Sýrlands. Þar settust þau að í bænum Manbij þar sem bróðir Ahmed bjó ásamt fjölskyldu sinni. „Ég spurði eiginmann minn: hvers vegna viltu eyðileggja líf mitt? Þú hefðir átt að segja mér það strax í upphafi að hverju væri stefnt,“ segir Maytat. „Hann svaraði: Þú ert eiginkona mín - þú verður að hlýða mér.“

Tár streyma niður kynnar Maytat þegar hún lýsir því fyrir fréttamanninum hvernig hún hafi reynt, án árangurs, að streitast á móti Ahmed, hennar einu tengingu við hennar fyrra líf. 

Í september varð hún þunguð af sínu fyrsta barni, Abdullah, og Ahmed var sendur í mánaðarlanga herþjálfun og þaðan í fremstu víglínu Ríkis íslams í Kobane. 

8. október 2014 greindi bróðir Ahmed Maytat frá því að eiginmaður hennar hefði fallið í orrustu. „Ég var sífellt þunglyndari. Þetta var eini maðurinn sem ég þekkti í þessu ókunnuga landi og ég var ein hér,“ segir hún í viðtali við AFP.

Konur á flótta frá Raqqa.
Konur á flótta frá Raqqa. AFP

Ófrísk og ein á báti var Maytat flutt í „gestahús“ fyrir ekkjur vígamanna, flestar frá  Úsbekistan og Rússlandi. Síðan hófst herþjálfunin.

„Þegar þeir neyddu okkur til þess að læra vopnaburð var ég þunguð en ég átti engra kosta völ,“ segir hún í viðtalinu. 

Þar sem hún talaði ekki sama tungumál og hinar ekkjurnar var Maytat leyft að flytja í hús þar sem íbúarnir töluðu arabísku. Þarna voru Frakkar, Túnisbúar, fólk frá Marokkó og Alsír og þar bjó hún þangað til Abdullah fæddist.

Lokuð inni af eiginmanni tvö

Innan við ári eftir andlát Ahmed gekk Maytat að nýju í hjónaband. Sá var einnig Afgani og hét Abu Abdullah og fór hann með hana til Raqqa. Hún segir að lífið þar hafi verið skelfilegt. Hann hafi lokað hana inni og innan við tveimur mánuðum síðar bað hún hann um skilnað.

Þá gekk hún í þriðja hjónabandið á jafn mörgum árum. Í þetta skipti var eiginmaðurinn indverskur vígamaður, Abu Talha al-Hindi, einnig búsettur í Raqqa. Þau voru gift í átján mánuði og eignuðust dóttur, Mariu, sem nú er 10 mánaða gömul. 

Þegar Maytat frétti að AbuTalha hafði látist í bardaga við sveitir uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Bandaríkjahers ákvað hún að taka höndum saman með annarri ekkju vígamanns. Sú kona er Jazidi. Þær náðu að flýja en Maytat neitar að segja hvernig. 

Fjölskylda á flótta frá Raqqa.
Fjölskylda á flótta frá Raqqa. AFP

Maytat veit ekki hvað bíður hennar í framtíðinni en hana dreymir um að geta snúið aftur til Marokkó með börn sín en hún veit ekki hvort framtíð hennar er þar. Hún hefur lært af biturri reynslu að raunin er oft önnur en talið er í upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert