„Madeleine, elsku Madeleine - tíu ár“

Kate og Gerry McCann árið 2012 með tölvuteiknaða mynd af …
Kate og Gerry McCann árið 2012 með tölvuteiknaða mynd af því hvernig Madeleine gæti litið út þá, níu ára gömul. AFP

Þann 3. maí verða tíu ár liðin frá því breska stúlkan Madeleine McCann hvarf sporlaust af hótelherbergi í Portúgal. Móðir hennar segir þetta hræðileg tímamót sem minni á „horfnar og stolnar stundir.“

Madeleine litla var þriggja ára og í fríi með fjölskyldu sinni er harmleikurinn átti sér stað. Sé hún á lífi er hún því orðin táningur. Ýmsar ábendingar hafa borist um að sést hafi til stúlkunnar í gegnum tíðina en hingað til hefur ekki reynst mögulegt að staðfesta neina þeirra. 

Foreldrar Madeleine hafa hins vegar aldrei gefið upp vonina. Þau hafa í gegnum árin þrýst á stjórnvöld, bæði bresk og portúgölsk, að halda leitinni og rannsókninni áfram. Þá hafa þau ráðið einkaspæjara til starfa.

Á opinberri Facebook-síðu um leitina að Madeleine skrifar móðir hennar, Kate McCann: „Við erum að undirbúa okkur andlega fyrir næstu vikur. Það er ljóst að þær verða erfiðar og sársaukafullar.“ Hún lýstir því að hún búist við því að kjaftasögur og hreinar og klárar lygar um hvarfið eigi enn og aftur eftir að fara á kreik og jafnvel rata á síður dagblaða. „Fyrst eftir að Madeleine hvarf þá íhugaði ég ekki einu sinni að horfa nokkur ár fram í tímann. Og núna erum við hér, Madeleine, elsku Madeleine - tíu ár.“

Kate McCann vonar að fjölmiðlar og þeir sem ræði málin á samfélagsmiðlum sýni ábyrgð. Hún segir að þó að sér og eiginmanninum Gerry verði ekki sýnd virðing vonar hún að öðrum sem tengjast málinu verði hlíft, m.a. systkinum Madelene og „að sjálfsögðu“ henni sjálfri.

Foreldrarnir skrifa báðir undir færsluna á Facebook. 

Lundúnalögreglan hefur aðstoðað við rannsókn málsins allt frá árinu 2011. Innanríkisáðuneyti Bretlands hefur í ár veitt lögreglunni aukið fjármagn til að halda rannsókninni áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert