„Rán aldarinnar“ framið í Paragvæ

Lögreglumenn rannsaka vettvang ránsins. Hundruð byssukúlur flugu í átökum lögreglu …
Lögreglumenn rannsaka vettvang ránsins. Hundruð byssukúlur flugu í átökum lögreglu og ræningjanna. AFP

Tugir vopnaðra manna sprengdu sprengjur og kveiktu í bílum áður en þeir réðust inn í byggingu öryggisfyrirtækis í Paragvæ og rændu þaðan milljónum dollara. Í kjölfar ránsins elti lögreglan ræningjana alla leið til Brasilíu. Ránið var framið í gærkvöldi að staðartíma.

Í frétt CNN um málið segir að meira en fimmtíu menn, vopnaðir stórum byssum, dínamíti og kastvopnum, hafi komið að innrásinni sem lögreglan kallar „rán aldarinnar.“

Fyrirtækið sem var rænt heitir Prosegur. Ræningjarnir brutust inn í nokkrar fjárhirslur byggingarinnar og náðu að hafa umtalsvert fé á brott með sér. Hvorki yfirvöld né fyrirtækið hafa þó staðfest hversu miklum peningum þeim tókst að ræna.

Ciudad del Este er önnur stærsta borg Paragvæ og liggur skammt frá landamærunum að Brasilíu og Argentínu.

Yfirvöld telja að ræningjarnir tilheyri brasilíska glæpagenginu Primer Comando de la Capital. Gengið er eitt það stærsta sem starfar í Brasilíu.

Einn lögreglumaður lést og einn slasaðist í skotbardaga við ræningjana. Þá særðust tveir vegfarendur. Þá létust þrír úr hópi ræningjanna.

Á meðan ránið átti sér stað var kveikt í bílum á vettvangi og handsprengjum kastað.

Ræningjarnir voru þungvopnaðir, kveiktu í bílum og sprengdu dínamít í …
Ræningjarnir voru þungvopnaðir, kveiktu í bílum og sprengdu dínamít í ráninu. AFP

Í frétt CNN segir að ræningjarnir hafi brotist inn á heimili við hlið öryggisfyrirtækisins. Fjölskyldan sem þar býr hafði leitað skjóls er skotbardagi braust út. „Við heyrðum stöðug læti í klukkutíma. Að minnsta kosti handsprengjur sprungu. Við földum okkur í einu svefnherberginu,“ segir fjölskyldufaðirinn Alejandro Anisimoff.

Að lokum tókst ræningjunum að komast undan og flýja yfir landamærin til Brasilíu. Nokkrir þeirra voru handteknir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert