United Airlines rannsakar dauða kanínu

AFP

Flugfélagið United Airlines rannsakar nú dauða risakanínu um borð þotu félagsins. Kanínan sem var 90 sm löng og hét Simon, fannst dauð í farmi vélarinnar sem var á leið frá Lundúnum til Chicago. Að sögn BBC var Simon á leið til nýs og frægs eiganda þegar hún drapst.

United Airlines hefur hlotið mikla gagnrýni eftir að farþegi var dreginn út úr þotu félagsins fyrir nokkrum vikum vegna yfirbókunnar.

Í tilkynningu frá félaginu sagðist það vera „miður sín“ vegna dauða Simon.

Samkvæmt frétt BBC er það ekki algengt að dýr drepist um borð í flugvélum en það kemur þó fyrir. Árið 2015 drápust 35 dýr um borð hjá bandarískum flugfélögum, þar af 14 í þotum United Airlines. Þá slösuðust níu dýr.

Í tilkynningu frá ‚United Airlines segir að öryggi dýra um borð véla félagsins sé eitt af forgangsatriðum þess og að málið væri í skoðun.

Dagblaðið The Sun heldur því fram að Simon hafi verið sonur stærstu kanínu heims, hinum 1,3 metra lagna Darius.

Eigandi Simon, Annette Edwards sagði í samtali við The Sun að kanínan hafi farið í skoðun hjá dýralækni 3 tímum fyrir flugið og hafi þá verið stálhraust.

„Eitthvað mjög skrýtið gerðist og ég vil vita hvað. Ég hef sent kanínur um allan heim og ekkert svona hefur gerst áður,“ er haft eftir Edwards.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert