Úrskurðir dómara fáránlegir að mati Trump

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir úrskurð dómara í San Francisco fáránlegan en dómarinn úrskurðaði tilskipun forsetans um að stöðva greiðslur til borga sem eru griðastaður ólöglegra innflytjenda ólöglega. Tilskipun forsetans þýddi að griðaborgirnar svo nefndu yrðu af fleiri milljarða Bandaríkjadala greiðslum úr ríkissjóði. 

Alríkisdómarinn, William Orrick, birti  bráðabirgðaúrskurð sinn í gær en samkvæmt honum brýtur tilskipun Trumps frá 25. janúar gegn lögum.

Trump segir bæði úrskurðinn í gær og ákvörðun áfrýjunardómstóls í San Francisco um að hafna í febrúar kröfu ríkisstjórnar Donalds Trumps um að ógilda bráðabirgðalögbann sem alríkisdómari í Seattle setti til að stöðva gildistöku umdeildrar tilskipunar um tímabundið bann við komu fólks frá múslímalöndum til Bandaríkjanna, fáránlega. 

„Sjáumst í hæstarétti!,“ skrifar Trump á Twitter í dag.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert