Fölsuð störf kostuðu 580 milljónir

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Evrópuþingið áætlar að hneykslismál tengt forsetaframbjóðandanum Marine Le Pen hafi kostað stofnunina fimm milljónir evra, rúmar 580 milljónir íslenskra króna. Le Pen og flokkur hennar, Front National, lugu til um starfsmenn flokksins í tengslum við þingmennsku Le Pen og fengu greidd laun fyrir aðstoðarmann hennar og lífvörð.

Áður var talið að fölsku störfin hefðu kostað Evrópuþingið 1,9 milljónir evra en ný gögn sýna fram á að kostnaðurinn er kominn í 4.978.122 evrur.

Evrópuþingið sakar Front National um að hafa nýtt sjóði þingsins, sem eru ætlaðir til þess að greiða aðstoðarmönnum, til þess að greiða starfsmönnum flokksins í Frakklandi laun á tímabilinu 2012-2017. Le Pen neitar þessu en rannsókn er hafin á málinu í Frakklandi.

Patrick Maisonneuve, lögmaður Evrópuþingsins, hefur staðfest fjárhæðina sem FN er sakað um að hafa svikið út. Alls eru 17 þingmenn á Evrópuþinginu, þar á meðal Le Pen sjálf, grunaðir um að hafa notað fé þingsins til þess að greiða aðstoðarmönnum sínum sem ekki koma að þinginu. 

Le Pen segir málið ekkert annað en persónulegar árásir á hendur henni og ætlað að koma í veg fyrir að hún verði kjörin forseti Frakklands. Í mars nýtti Le Pen sér friðhelgi sem þingmaður á Evrópuþinginu til þess að komast hjá því að svara spurningum rannsóknardómara um ásakanir á hendur henni.

Skrifstofustjóri FN, Catherine Griset, og annar starfsmaður flokksins hafa verið ákærð í tengslum við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert