Úrskurðuð látin en lifnaði við

AFP

Tæplega fimmtug kona var úrskurðuð látin af bráðaliðum eftir að hún hafði misst meðvitund á heimili sínu í París á þriðjudag. Klukkustund síðar lífgaði lögreglumaður hana við eftir að hafa tekið eftir hreyfingu á maga hennar.

Bráðaliðar frá Salpetriere-sjúkrahúsinu komu fljótlega á vettvang eftir að dóttir konunnar hringdi í neyðarlínuna eftir að móðir hennar fékk hjartaáfall. Móðirin glímir við átröskun samkvæmt frétt Le Parisien.

Bráðaliðunum tókst ekki að endurlífga konuna og úrskurðuðu hana látna klukkan 18:10 og skrifuðu dánarvottorð.

Um það bil klukkustund síðar kom lögreglan á vettvang til þess að skrifa skýrslu um andlát konunnar. Þegar lögregluþjónarnir lyftu upp teppinu sem huldi „líkið“ tóku þeir eftir einhverri hreyfingu á kvið konunnar.

Þeir könnuðu púls hennar og fundu að hjarta hennar sló enn. Þeir reyndu því að endurlífga hana með hjartahnoði. Eftir um það bil hálftíma andaði konan á ný og var flutt á Necker-sjúkrahúsið þar sem hún dvelur núna.

Að sögn lögreglustjórans í áttunda hverfi verða lögreglumennirnir tveir heiðraðir fyrir hugrekki sitt.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert