Fjarlægði brjóst að óþörfu

Skurðlæknirinn er sekur um að hafa gert fjölmargar óþarfa skurðaðgerðir …
Skurðlæknirinn er sekur um að hafa gert fjölmargar óþarfa skurðaðgerðir á sjúklingum sínum og meðal annars brjóstnámsaðgerðir. AFP

Breskur skurðlæknir var fundinn sekur um að hafa gert fjölmargar ónauðsynlegar skurðaðgerðir. Hann framkvæmdi meðal annars óþarfa brjóstnámsaðgerðir á konum án þess að raunveruleg hætta væri á krabbameini. 

SKY-fréttstofa greinir frá.   

Ian Paterson, sem er 59 ára, var sakfelldur fyrir að gera 17 tilhæfulausar skurðaðgerðir. Óttast er að hann hafi gert mun fleiri aðgerðir og að fórnarlömb hans hlaupi jafnvel á þúsundum. Við dómsuppkvaðninguna grét hann og einnig dóttir hans sem stóð við hlið hans. 

Laug til um hættu

Dómstóll í Nottingham kvað upp dóminn. Fyrir dómi kom fram að hann er sagður hafa gert óþarfa skurðaðgerðir án þess að hafa verið með neinar læknisfræðilegar sannanir fyrir mikilvægi skurðaðgerðanna. Hann er sagður hafa logið að sjúklingum sínum um áhættu og líkur á að fá krabbamein, mögulega í því skyni að græða á því.   

Yfir 700 sjúklingar hans hafa verið skoðaðir aftur og þar af 68 konur sem fóru í brjóstnám að óþörfu. Tæplega 800 sjúklingar hafa fengið greiddar tæplega 18 milljónir punda vegna mistakanna.  
Ýmsar getgátur eru uppi um ástæðuna fyrir því hvers vegna hann lagði fjölda fólks undir hnífinn.

Lék hann guð?

„Gerði hann þetta í hagnaðarskyni, eins og sumir skjólstæðingar hans álykta, eða gerði hann þetta svo hann gæti leikið guð og fengið pervertíska ánægju af því að flytja sjúklingum slæmar fréttir og lækna þá svo aftur á nýjan leik,“ segir Caroline Marsh sem leiddi rannsókn málsins. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert