Íburðarmesta almenningsklósettið?

Alltaf eru nýafskorin blóm til skrauts á almenningssalerninu.
Alltaf eru nýafskorin blóm til skrauts á almenningssalerninu. AFP

Í garði á milli skýjakljúfa New York-borgar leynist gimsteinn allra almenningssalerna. Á veggjunum hanga listaverk, flísar eru á gólfum og blómvendir standa í vasa. Aðgangur að klósettinu er ókeypis.

Þeir sem ferðast mikið vita hversu óþægilegt og tímafrekt það getur verið að komast á klósettið þegar rölt er um borgir heimsins. Oft eru almenningsklósett frekar óálitleg og þá þarf að bregða sér inn á veitingastað eða hótel, kaupa sér einn drykk eða mat til að fá aðgang að klósettinu.

En bak við almenningsbókasafnið á Manhattan er allt annað uppi á teningnum. Almenningsklósettið í garði bókasafnsins hefur nú allt verið tekið í gegn. Kostnaðurinn nam 300 þúsund dollurum, tæpum 32 milljónum króna og stóðu endurbæturnar yfir í þrjá mánuði. Búist er við því að um milljón manna nýti sér aðstöðuna á hverju ári.

Einkafyrirtæki, Bryant Park Corp., sem á fasteignir á svæðinu, fjármagnaði endurbæturnar. Fyrirtækið vinnur að því að bæta umhverfið á svæðinu og vonast til þess að mannlífið og viðskiptalífið glæðist enn frekar af þeim sökum.

Starfsmenn sjá um að halda almenningssalerninu hreinu og samkvæmt reglum garðsins á ekki að greiða þjórfé fyrir notkun á því.

Frétt AP-fréttastofunnar um málið.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert