Þrír formenn FN á fjórum dögum

Feðgin en andstæðingar Jean-Marie Le Pen og Marine Le Pen
Feðgin en andstæðingar Jean-Marie Le Pen og Marine Le Pen AFP

Franska þjóðernisflokknum Front National hefur haldist illa á formönnum undanfarna daga en þriðji formaðurinn á fjórum dögum tekur við í dag. Marine Le Pen hætti tímabundið sem formaður FN á mánudag en arftaki hennar missti starfið í morgun vegna ummæla um helförina.

Marine Le Pen greindi frá því á mánudag að hún ætlaði að víkja tímabundið úr embætti formanns en kosið verður á milli hennar og Emmanuel Macron í seinni umferð forsetakosninganna 7. maí. 

Jean-François Jalkh og bæjarstjórinn í Henin-Beaumont, Steeve Briois.
Jean-François Jalkh og bæjarstjórinn í Henin-Beaumont, Steeve Briois. AFP

Jean-François Jalkh, þingmaður FN á Evrópuþinginu, tók við sem formaður flokksins en í morgun var ákveðið að láta hann víkja og fá Steeve Briois, bæjarstjórann í Hénin-Beaumont, sem nýtur mikilla vinsælda til þess að taka við embætti formanns.

Fljótlega eftir að tilkynnt var um að Jalkh tæki við sem formaður voru rifjuð upp ummæli hans síðan fyrir nokkrum árum. Var haft eftir honum að hann teldi það tæknilega ómögulegt, „og ég ítreka - ómögulegt - að nota það [Zyklon B] við fjölda-útrýmingu. Hvers vegna? Vegna þess að þú þarft nokkra daga til þess að afmenga rými ... þar sem Zyklon B hefur verið notað,“ er haft eftir honum í viðtali sem dagblaðið La Croix birti á miðvikudag. 

Zyklon B var notað af nasistum í útrýmingarbúðum þeirra í Póllandi og víðar. Jalkh neitar því að hafa sagt þetta.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þetta bull. Ég minnist þess ekki að hafa sagt þetta,“ sagði hann í viðtali við Le Monde. „Ég hef kannski verið í viðtali en þetta er ekki umræðuefni sem ég hef áhuga á að ræða.“

En í ljós kom að hann lét ummælin falla í viðtali við Magali Boumaza, stjórnmálafræðing, sem birt var í ritgerð um Front National.
Útrýmingarbúðir nasista hefur verið FN erfiður ljár í þúfu en Jean-Marie Le Pen, faðir Marine Le Pen, lá ekki á skoðunum sínum varðandi helförina og endaði með því að hann var rekinn úr flokknum fyrir tveimur árum eftir að hann ítrekaði í viðtali að helförin, skipulögð fjöldamorð þýskra nasista á gyðingum, hafi aðeins verið „smáatriði í sögu síðari heimsstyrjaldarinnar“. 
Jean-Marie Le Pen stofnaði Þjóðfylkinguna fyrir hálfum fimmta áratug. Andstaða við Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið, ESB) hefur verið á stefnuskránni frá upphafi, flokkurinn er alfarið á móti Schengen-samstarfi Evrópuríkja um ytri landamæri álfunnar en sá liður í stefnuskrá flokksins sem lengi vakti mesta athygli, og deilur, var andúð á innflytjendum.
Frakkland fyrir Frakka, var slagorð flokksins sem aftur hefur ómað af nokkrum krafti undanfarið. Gyðingahatur var áberandi og hin síðari ár einnig baráttan gegn Múhameðstrú. Íslam er nú helsta ógn við franskt samfélag, að mati Þjóðfylkingarinnar, samkvæmt grein í Sunnudagsmogganum nýverið.
Í viðtali við fræðirit sem birt var árið 2005 sagði Jalkh að það þyrfti að ræða vanda sem fylgdi gasklefunum. Hann hældi í greininni verkum Robert Faurisson sem hefur verið dæmdur fyrir hatursorðræðu og að neita tilvist helfararinnar. 
Varaformaður FN, Louis Aliot, sagði í viðtali við BFMTV í dag að „Briois myndi taka við formennskunni tímabundið og það þurfi ekki að ræða þetta frekar.“

Aliot segir að Jalkh neiti því að hafa látið ummælin falla og að hann myndi höfða mál. Ekki kom hinsvegar fram gegn hverjum. 

Jalkh, sem einnig er sakaður um að hafa beitt ólöglegum aðferðum við fjármögnun framboðs Le Pen árið 2012 en þá komst hún ekki í aðra umferð forsetakosninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert